Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Stjórnlagaþingmenn ættu að segja nei

Þau sem hlutu kosningu í haust ættu að hafa manndóm í sér að segja nei þegar þeim er boðið að taka þátt í því að gefa Hæstarétti fingurinn.  En það er ekki við því að búast að margir af þessum 25 muni segja nei þar sem það er mannlegt eðli að þiggja hluti sem því er fært.  Ég er ekki að segja að þau eigi ekki skilið að fá að sitja í stjórnlagaráði, nefnd eða þingi heldur eingöngu að benda á að þau ættu ekki að eiga rétt á því á grundvelli kosninga sem voru dæmdar ólöglegar.
mbl.is Nokkrir í stjórnlagahópnum óákveðnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leggjum Hæstarétt niður!!!

Ég get eiginlega ekki annað en borið virðingu fyrir Ögmundi þó að ég sé nú ekki alltaf sammála honum. Reyndar yfirleitt ekki sammála honum. Hann er eingöngu að fylgja sinni eigin sannfæringu, sem honum og öllum öðrum þingmönnum ber að fara eftir. Ég var ósáttur við gagnrýni hans á hæstarétt eftir þessa ákvörðun þeirra en hann stendur við orð sín að það eigi að fylgja henni til hins ítrasta.  

Þessi hugmynd að það sé bara allt í lagi að fara á svig við dóma eða ákvarðanir Hæstarétts sýnir það bara svart á hvítu að núverandi stjórnvöld hafa algjörlega hundsað kröfu þjóðarinnar um breytingu á stjórnarháttum í landinu. Þar fara í fararbroddi Jóhanna og Steingrímur. Jújú, vissulega er þessi leið lögleg en á sama tíma er hún siðlaus með öllu og gegn anda þrískiptingar valdsins. Að vísu hafa íslensk stjórnvöld aldrei haft mjög mikið álit á þeirri reglu.

Dómarar hæstaréttar sem og aðrir dómarar dæma samkvæmt lögunum, bæði í víðum og þröngum skilningi.  Það er ekkert að því að gagnrýna dóma sem koma frá dómstólum en þeim skal hlýta engu að síður.  Um leið og fólki finnst það bara í góðu lagi að fara fram hjá dómum hæstaréttar af því að það er ekki sammála þeim eða þeir eru óþægilegir þá getum við alveg eins lagt hæstarétt niður. 

Ég er þeirrar skoðunar að stjórnlagaþing skal halda en þetta er ekki rétta leiðin til að það verði sátt og samstaða um störf þess þings.  


mbl.is Ítrekar andstöðu við stjórnlagaráð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta er afskaplega einfalt

Ef það verður ekki séð til þess að kjósendur fái hlutlausa kynningu á lögunum og samningnum þá mun niðurstaðan í þjóðaratkvæðagreiðslunni einungis velta á hvor hliðin vinnur hræðsluáróðurskeppnina.  En er það ekki einmitt það sem ríkisstjórnin er að treysta á.  Akkúrat núna virðist áróðursmaskína stjórnarinnar vera að standa sig töluvert betur heldur en maskína mótherjanna.

Ég persónulega mun kjósa nei þar til annað kemur í ljós en hins vegar er ég líka ákveðinn í að leita mér eins mikilla upplýsinga um málið og ég get og það má vel vera að ég skipti um skoðun að því loknu.  Ég held samt að fæstir muni leggja það á sig sjálfir að leita uppi upplýsingar og reyna að taka upplýsta ákvörðun út frá því.  Í staðinn mun fólk láta tilfinningu ráða  þar vegur áróður að ég held einna þyngst.


mbl.is Ekki áform um frekari kynningu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heyrðum við þetta ekki seinast 2004?

En þó eru allt aðrir flokkar við stjórnvölinn.  Merkilegt er það hvað lítið breytist þó að annað fólk komist í stjórn í þessu landi.  Og það þó að við stjórnvölinn sé fólk sem er alveg á hinum enda pólsins miðað við fyrri ríkisstjórnir.  Það er alltaf þannig að ef eitthvað er óþægilegt fyrir þá sem stjórna þá þarf að breyta því.  En þá spyr ég varðandi þessa tilteknu mögulegu breytingu: Hvar værum við stödd ef að þáverandi ríkisstjórn hefði fengið sínu framgengt 2004 og 26. grein stjórnarskrárinnar hefði verið afnumin?

Burt séð frá skoðun fólks á því hvort rétt hafi verið af forseta okkar að neita að staðfesta lögin núna og hvort fólk vill samþykkja eða neita þessum lögum í komandi kosningum þá hefði þessi breyting 2004 komið í veg fyrir að hægt hefði verið að synja Icesave II lögunum og því sætum við uppi með mun verri samning heldur en nú er kominn.

26. greinin verður að fá að halda gildi sínu.  Það má mögulega laga hana aðeins til og gera hana skýrari en þá eingöngu til að styrkja þennan rétt forseta og þar með taka af öll tvímæli um þennan rétt.

Þar fyrir utan tel ég að það ætti að bæta greinum við stjórnarskránna til að auka möguleika þjóðarinnar á að koma umdeildum málum í þjóðaratkvæði.  Vissulega þyrfti að setja einhver mörk, eins og t.d. að það væri ekki hægt að koma fjárlagafrumvarpi í þjóðaratkvæði.  Og jafnvel að skilgreina viðbótargreinar að þær kæmu ekki til álita ef það væri aukinn meirihluti á þingi með lögum.  En 26. greinin má ekki innihalda slík skilyrði þar sem þá væri ekki hægt að koma lögum, eins og t.d. icesave III, í þjóðaratkvæði þrátt fyrir að alþingi væri augljóslega ekki að vinna í sátt við þjóðina eins og gerðist nú.

Á þann hátt héldum við ennþá þessu aðhaldi að þingheimi, aðhald sem hann þarf nauðsynlega á að halda þessi dægrin.


mbl.is Vill breyta 26. greininni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að sjálfsögðu....

Höldum við tvöfaldar kosningar, annað væri firra.  Það má auðveldlega færa rök fyrir því að með því að halda tvöfaldar kosningar þá séu góðar líkur á að kosningaþátttaka í kosningu um stjórnlagaþingmenn myndi snaraukast frá fyrri tilraun þeirra kosninga.  Svo sem ekki ólíklegt að það verði margir auðir seðlar þar en það stimplast nú fyrst og fremst á flókið kosningakerfi.

Að sama skapi má auðveldlega færa rök fyrir því að verði ekki haldnar tvöfaldar kosningar þá verði þátttaka  í kosningum til stjórnlagaþings ennþá verri heldur en hún var í haust.  Fólk á ekki eftir að nenna að taka þátt í þriðju almennu kosningunum á landinu á innan við einu ári.

Varðandi hvort eigi að kjósa aftur til stjórnlagaþings eða ekki þá er það dagljóst í mínum huga að það er ekkert val um annað.  Hinir tveir valmöguleikarnir sem hefur verið rætt um eru ekki í boði að mínu mati.  Það er löngu kominn tími á að stjórnarskráin verði endurskoðuð í heild sinni og það hefur sýnt sig mætavel að alþingismenn eru ekki hæfir til að gera það á hlutlausum grundvelli.  Og ef að þessir 25 sem voru kosnir í ógildu kosningunum í haust yrðu skipaðir af alþingi í stjórnlaganefnd þá myndi það ekki gera lítið úr æðsta dómsvaldi lands okkar heldur myndi það gera út um það.  Þar af leiðandi stendur það eitt eftir að kjósa upp á nýtt.

Svo má hins vegar rökræða það fram og aftur hvort það ætti að kjósa aftur um þess 522 sem voru í framboði eða óska eftir nýjum framboðum.  Mér persónulega finnst að það ætti að óska eftir nýjum framboðum en að sama skapi snarhækka lágmarksfjölda meðmælanda til að koma í veg fyrir annað eins fíaskó þar sem allir og amma þeirra voru í framboði.  Mér þætti hæfilegur fjöldi meðmælanda 1/20 af fjölda meðmælenda mögulegs forsetaefnis eða minnst 75 og mest 150.  Jafnvel 1/10 (150-300).


mbl.is Einföld eða tvöföld kosning?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svolítið kjánalegt....

Að halda því fram að við fáum hlutlausa og greinargóða skýringu á samningunum frá sama fólkinu og sá um að semja. Að vísu minnist hann ekkert á hlutlausa skýringu en er það ekki nákvæmlega það sem við þurfum fyrst og fremst? Ég get ekki ætlast til þess að fá hlutlausa greiningu á samningi frá manni sem tók þátt í að útbúa samninginn. Það væri svipað og að ætlast til að fá hlutlaust mat á tertu ársins frá bakaranum sem bjó til uppskriftina að henni.
mbl.is Skýrir kostir í stöðunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afsagnir þings og forseta, kosningar strax, umboðslaus ríkisstjórn o.s.frv.

Munum við virkilega þurfa að hlusta á allt þetta rugl aftur? Sama ruglið og gekk yfir okkur í fyrra að allir og amma þeirra eigi að segja af sér. Helst að kjósa til þings samhliða þjóðaratkvæðagreiðslu og nýjan forseta líka fyrst að við erum að kjósa á annað borð. Göngum bara alla leið, einar almennar kosningar þar sem við kjósum nýtt Alþingi, nýjan forseta, nýtt stjórnlagaþing og hendum sveitarstjórnarkosningum inn í pakkann líka. Reynið bara að gleyma ekki þjóðaratkvæðagreiðslunni í farganinu öllu saman.
mbl.is Bensínlaus ríkisstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undrandi??

Það kemur mér mest á óvart að þau skuli vera undrandi yfir þessu. Ólafur Ragnar er búinn að setja ákveðið fordæmi varðandi hvað þarf að gera til að koma málum í þjóðaratkvæði. Ef hann færi að brjóta út frá því fordæmi væri næsta víst að hann neyddist til að segja af sér embætti. Þar fyrir utan, eins og hann sagði sjálfur, þá er þetta framhald af Icesave II og það hefði skotið skökku við ef við, þjóðin, hefðum ekki fengið að klára það mál.

Þá er bara að fylkja liði á kjörstaði og segja nei við þessum lögum. Um að gera að kjósa til stjórnlagaþings í leiðinni. Og kjörstjórnir landsins, væruð þið til í að fara að lögum um almennar kosningar í þetta sinn.


mbl.is Undrast mjög ákvörðun forseta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Opið bréf til Forseta Íslands

Hér með skora ég á þig að staðfesta ekki lög þau er samþykkt voru þann 16. febrúar 2011 um heimild til handa fjármálaráðherra til að staðfesta samninga,
sem áritaðir voru í London 8. desember 2010, um ábyrgð á endurgreiðslu
Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta til breska og hollenska ríkisins á kostnaði af greiðslu lágmarkstryggingar til innstæðueigenda í útibúum Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og Hollandi og greiðslu eftirstöðva og vaxta af þeim skuldbindingum.

Þegar þessi færsla er skrifuð þá hafa verið skráðar 38.167 undirskriftir á síðu kjosum.is þar sem þú ert hvattur til að neita að staðfesta fyrrnefnd lög. Viljir þú vera samkvæmur sjálfur þér þá ber þér að neita að staðfesta þessi lög. Árið 2004 barst þér undirskriftarlisti með nöfnum 31.752 Íslendinga sem vildu ekki að þú staðfestir lög um fjölmiðla.
Eins og flestir vita þá kom þáverandi þing i veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um þau lög með því að samþykkja frekar önnur lög sem felldu þau fyrri úr gildi. Þrátt fyrir frekar skýr ákvæði í stjórnarskrá Íslands þá komu samt upp spurningar um hvort þér væri yfirhöfuð heimilt að vísa lögum til þjóðaratkvæðisgreiðslu og upp komu háværar raddir um að breyta þyrfti stjórnarskrá í þá veru að fjarlægja þetta ákvæði úr henni. En það hefur ekki enn verið gert.
Með þessu gafstu ákveðið fordæmi sem ég tel að þú hljótir að fylgja eftir. Þegar lög um Icesave II voru samþykkt barst þér aftur undirskriftarlisti, í þetta skiptið með nöfnum 56.089 einstaklinga sem hvöttu þig til að neita að staðfesta þau lög. Og aftur gerðir þú það en í þetta skiptið rötuðu lögin til þjóðaratkvæðisgreiðslu þar sem 98,1% gildra atkvæða sögðu nei við því að lögin ættu að taka gildi.
Í undanfara þeirra kosninga voru margir sem sögðu þjóðina ekki vera færa um að kjósa um svo flókin málefni, þar með talinn hæstvirtur fjármálaráðherra, ef ég man rétt. Aðra eins óvirðingu gagnvart þjóðinni hef ég sjaldan séð af einum af hæst settu einstaklingum þjóðarinnar. Það sem kemst kannski næst því er hin snilldarlausn sem þáverandi forsetis- og utanríkisráðherrar komu með 2004 að fella bara lögin úr gildi.
Með því að neita að staðfesta lög öðru sinni eftir að hafa fengið afhentan undirskriftarlista þá einungis styrktir þú fordæmið sem þú gafst eftir fyrra skiptið.
En af öðrum ástæðum fyrir að þú eigir að neita að staðfesta þessi lög líka má nefna að þessi lög og samningurinn sem þau fjalla um eru með réttu einungis framhald af lögunum sem þú neitaðir að staðfesta seinast og því er rökrétt að leyfa þjóðinni að kjósa aftur um þau. Annað er að þingheimur felldi breytingartillögu um að þessi lög ættu að fara í þjóðaratkvæði með naumum meirihluta 33 atkvæðum gegn 30. Og mátti auðveldlega skilja orð Árna Páls þegar hann gerði grein fyrir atkvæði sínu um þá breytingartillögu að enginn þingmaður Samfylkingarinnar myndi styðja slíka breytingartillögu þannig að þingmenn þess flokks væru tilneyddir til að segja nei. Það verður að athugast að það hefðu einungis tveir þingmenn stjórnarinnar í viðbót þurft að svíkja lit til að þessi lög hefðu farið í þjóðaratkvæði.

Það er mitt mat að þau atriði sem ég hef nú þegar talið til ættu að duga fyrir þig að ákveða að neita að staðfesta þessi lög en til að bæta um betur þá vil ég minna á að það eru einungis 44 einstaklingar sem hafa samþykkt þessi lög. Lög sem eru framhaldstilraun af lögum sem 134.392 einstaklingar samþykktu ekki.

Er ekki rökrétt og sanngjarnt að þjóðin fái aftur að meta kosti og galla þessara laga í almennum kosningum?


mbl.is Forsetinn fékk frumvarpið í kvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tíma illa varið

Spurning hversu mörgum raunverulega mikilvægum málum hefði verið hægt að koma í gegnum þingið hefðu þessum 208 tímum verið varið í þau í staðinn fyrir þetta eina mál. Alls ekki misskilja mig, þetta mál er mjög mikilvægt en það hefði ekki átt að þurfa nema smá stund, brot af þessum 208 tímum, að komast að hinni einu réttu niðurstöðu: VIÐ EIGUM EKKI AÐ BORGA ICESAVE.
En því miður er það svo að meirihluti þeirra sem sitja á þingi þora ekki öðru en að láta gömlu heimsveldin kúga sig og þar með þjóðina alla. Þau þora ekki að taka áhættuna á að farin verði dómstólaleiðin því þau halda að við munum tapa því dómsmáli.

Mín kenning er hins vegar sú að Bretar og Hollendingar muni aldrei fara dómstólaleiðina að eigin frumkvæði, alveg sama hvað gengur á. Þeir muni hins vegar, ef svo fer að forseti vors neiti aftur að skrifa undir lögin (sem ég vona að gerist) og þjóðin segir aftur nei, bjóða okkur enn þá betri samning og svo enn betri samning eftir það.

Ástæðan fyrir því að þeir muni aldrei fara í mál við okkur að eigin frumkvæði er að það væri alltaf "lose/lose situation" hjá þeim. Á aðra höndina gætu þeir unnið og Ísland verið skikkað til að borga allt saman en þá væri komið dómafordæmi fyrir því að tryggingasjóðir innistæðna væru með ríkisábyrgð og hvorug þjóðin gæti staðið undir því ef þeirra eigin bankakerfi myndi hrynja og þá sérstaklega ekki Bretland. Það þyrfti meira að segja ekki nærri jafn stórt hrun á þeirra mælikvarða til að þeir gætu ekki staðið undir því. Og á hinn bóginn ef þeir myndu tapa því máli og þar af leiðandi kæmi í ljós að við hefðum haft réttinn okkar megin þá væri það "PR Disaster" fyrir bæði Hollendinga og Breta. Þar með væri það staðfest að þessar stóru þjóðir hafi á óréttmætan hátt þvingað litla Ísland til samningagerðar og reynt að þvinga okkar litlu þjóð til að skuldsetja sig í fleiri ár án þess að það væru lagaleg rök með því.

Hér með hvet ég Forseta vor, Ólaf Ragnar Grímsson, til að neita að staðfesta þessi(ó)lög og vísa þessu til þjóðaratkvæðis. Á þann hátt getur meirihluti þjóðarinnar ákveðið að steypa okkur í skuldafen næstu 35 árin eða staðið uppi á móti stóru þjóðunum. Á hvorn veginn sem sú atkvæðagreiðsla færi þá væru í það minnsta aðeins fleiri heldur en 44 hræður sem hefðu valið fyrir þjóðina. Aðeins meira heldur en 0,014% prósent þjóðarinnar sem hefðu valið fyrir hin 99,986% sem búa hér í þessu landi.


mbl.is Icesave-umræða í 208 stundir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband