Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Svar við samnefndri færslu Ágústar Ólafs varaformanns Samfylkingarinnar.
Þessi nýja ríkisstjórn er jú búin að gera slatta síðan hún tók við en ekki nærri nógu mikið miðað við þær væntingar sem voru gerðar til hennar, þá sérstaklega Samfylkingarhlutans. Það er náttúrulega vitað mál að það sem heldur aftur af henni, að mestu, er náttúrulega Sjálfstæðisflokkurinn. En samt er ýmislegt sem fólk sem ég hef rætt við er ekki sátt við varðandi Samfylkinguna. T.d. er það mat margra að hæstvirtur samgönguráðherra Kristján L. Möller hafi aldrei átt að fá þá ráðherrastöðu. Ágúst Ólafur hefði til að mynda verið mun betra val.
En tilgangur þessarar færslu var aðallega að svara og gagnrýna ýmsa af þeim punktum sem Ágúst Ólafur kom með í færslu sinni "Hvað hefur ríkisstjórnin gert í velferðarmálum?"
Áður en ég tek punktana hans sérstaklega fyrir þá er eitt almennt atriði varðandi lífeyrisþega og almannatryggingakerfið. Hvernig stendur á því að það virðist sem aðaláhersla núverandi ríkisstjórnar varðandi umbætur lífeyriskerfisins og bættan hag lífeyrisþega sé á aldraða? Ekki misskilja mig, bættur hagur ellilífeyrisþega er mjög gott mál en mér, sem öryrkja (og annarra öryrkja sem ég hef talað við), finnst ansi mikið eins og það sé verið að skilja okkur eftir, eins og ég mun ræða hérna aðeins seinna.
Nú var það þannig að þegar annar hópurinn fékk einhverjar umbætur þá almennt fylgdi hinn með. Það er ef að öryrkjar fengu t.d. sérstaka hækkun á einhverju sviði, skerðingarprósentu t.d. þá fékk hinn það líka en nú virðist vera búið að slíta þetta þó nokkuð í sundur. Tek sem dæmi að ellilífeyrisþegum 67-70 ára var lofað 100 þús. kr. frítekjumarki á mánuði og frumvarp þess efnis lagt fram en ekkert gert fyrir okkur öryrkjana. Nú skilst mér reyndar að það sé búið að leggja fram samskonar frumvarp fyrir okkur en eins og þetta hefði verið gert samtímis hér áður fyrr, í sama frumvarpinu. Enda finnst mér eðlilegast að gera það þannig. Fleiri dæmi um nýlegar breytingar og/eða loforð væri hægt að telja hér upp en það væri of langt mál.
Þá kem ég að punktunum hans Ágústar.
1. Gott mál að hækka bæturnar en þessi hækkun er nú þegar horfin í verðbólguna, eitthvað sem þessi ríkisstjórn virðist vera algjörlega máttvana að berjast við. Annað sem ég finn að þessum punkti er þessi sérstaka kjarabót fyrir ellilífeyrisþega sem ekki fá neinar greiðslur úr lífeyrissjóði. Gott mál fyrir aldraða en hvað með þá öryrkja sem hafa ekki áunnið sér neinn rétt til örorkubóta úr lífeyrissjóði? Eða veikindi þeirra eru þess eðlis að lífeyrissjóðirnir neita að framreikna lífeyrisréttindin svo að þeir fá bara brot af þeim bótum sem aðrir öryrkjar sem hafa fengið framreikning fá. Af hverju fáum við ekki svipaða kjarabót og aldraðir? Nú gætu sumir svarað: Þeir fengu það með aldurstengdu uppbótinni. Vandamálið er að það fá allir þá uppbót óháð lífeyrissjóðsgreiðslum. Þá mætti líka spyrja fyrir hönd aldraða sem voru öryrkjar, af hverju er þeim ekki tryggt að þeir fái áfram aldurstengda uppbót eftir þeir verða 67 ára? Þeir sem voru ungir þegar þeir fengu fyrst örorku geta verið að tapa allt að 27 þús. kr. þegar þeir verða 67 ára gamlir.
2. Þetta er eitthvað sem hefði átt að vera búið að gera fyrir mörgum árum, saman ber dóm hæstaréttar um ólögmæti þessarar skerðingar. Í raun ætti að greiða okkur öllum sem hafa lent í þessari skerðingu uppbót talsvert aftur í tímann.
3. Þarna má segja það sama, eitthvað sem hefði mátt gera fyrir löngu og þetta frítekjumark mætti alveg vera talsvert hærra. Það myndi kosta ríkissjóð mjög lítið að hafa þetta hærra.
4. Já, vasapeningarnir hafa hækkað um 30% en hvað er það í krónum talið? 6.755 kr. Finnst einhverjum þetta mikil hækkun? Fyrir utan það að frítekjumark það sem þeir hafa haft var afnumið.
5. Af hverju var ekki sama gert fyrir öryrkja?
6. Þarna kemur einmitt punkturinn sem ég ræddi hérna fyrir ofan. Af hverju var ekki séð til þess að öryrkjar fengju þetta líka og á sama tíma? Eins og staðan er í dag, og er búin að vera lengi, er nánast engin fjárhagsleg hvatning fyrir öryrkja að fara út á vinnumarkaðinn og bæta kjör sín. Fyrir nokkru reiknaði ég út að nettótekjur öryrkja á vinnumarkaði eftir skatta og skerðingu væri um 30% eða 300 kall af 1000 kr. tímakaupi. Væri einhver sem ekki væri öryrki til í að vinna fyrir það? Þetta má líkja við að vera með 70% skatt og gjöld á tekjur. Ég viðurkenni það fúslega reyndar að ég hef ekki reiknað þetta út aftur eftir þær breytingar sem sem hafa komið nýlega eða verið lofað.
Fyrir mér hefur í rauninni eina hvatningin til þess að fara að vinna, þegar ég hef getað það, verið að komast út af heimilinu og finnast ég vera að gera eitthvað af viti.
7. Þetta er mjög gott mál fyrir þennan hóp en mín spurning er: Af hverju var verið að búa til nýtt aldursþrep? Hefði það verið svo dýrt fyrir ríkið að ganga alla leið og fella niður tekjutenginguna hjá öllum ellilífeyrisþegum? Og jafnvel hjá öryrkjum líka? Ekki gleyma því að auknar bætur til þessa hópa, sem og annarra, skilar sér að miklu leyti til baka í ríkissjóð í gegnum virðisaukaskatt og annan jaðarskatt. Því að það er löngu sönnuð regla að meiri tekjur þýðir, hjá nánast öllum, aukin eyðsla.
8. Gott mál. Ekkert út á þetta að setja nema að mögulega hefði þetta mátt vera hærra, en það er alltaf hægt að segja það :)
9. Flott mál en sjá punkt 1.
10. Flott.
11. Átti þessi nefnd ekki að skila af sér fyrst í desember? Og síðan í apríl? Og verður farið eftir því sem þessi nefnd segir þegar hún skilar loks af sér? Hvað ef það kemur í ljós að lágmarksframfærsla sé um 180 þús.? Mun ríkisstjórnin hækka bætur í samræmi við það? Ég trúi því þegar ég sé það.
12. Gott mál, en hvað með þá foreldra sem voru einhverja hluta vegna ekki á vinnumarkaði fyrir greiningu barnsins?
13. Samkvæmt útreikningum Stefáns Ólafssonar prófessors við HÍ þá hefðu skattleysismörk átt að vera komin í um 130 þús. kr. áríð 2006 ef þau hefðu fylgt launaþróuninni. Útreikningar sem Samfylkingin var samþykk, alla veganna á meðan hún var í stjórnarandstöðu. Þess vegna segi ég að þetta sé ekki kjarabót heldur leiðréttingu sem meira segja gengur ekki nærri nógu langt. Þess má geta að elli- og örorkubætur voru, samkvæmt sömu rannsóknum Stefáns, skattfrjálsar fram til 1996 en ekki lengur. Öryrki sem varð öryrki 19 ára, býr einn og hefur engar aðrar tekjur en bæturnar borgar í dag um 24 þús. í skatta.
14. Já en komugjöld allra annarra voru hækkuð til að vega á móti því. Þar með talið hjá öryrkjum og öldruðum. En að mínu mati eru það ekki komugjöldin sem eru vandamálið heldur lyfjaverð. Að það þurfi t.d. að borga fullt verð fyrir sýklalyf, óháð því hver á áð fá þau, er fáránlegt. Bara á seinustu 2-3 vikunum erum ég og barnsmóðir mín búin að þurfa að greiða um 10 þús. fyrir lyf handa barninu okkar. Og nú erum við bara að tala um sýklalyf og eitt astmapúst. Þegar ég sé þessa reikninga okkar, sem eru nú tiltölulega smávægilegir, þá finn ég til með foreldrum þeirra barna sem eru t.d. eyrnabólgubörn eða langveik í þeim skilningi að þau ná sér í allar pestir sem eru að ganga hverju sinni. Ég þekki sjálfur nokkur svona börn.
15.-17. Langt síðan var kominn tími á þetta. Ég lít á þetta eins og punkt 13, leiðrétting, ekki kjarabót.
18. Fyrst, af hverju bara fyrstu kaupendur? Af hverju ekki að afnema þau með öllu? Get ekki séð betur en að núna sé einmitt rétti tíminn til þess þegar að fasteignamarkaðurinn er nánast frosinn.
Og svo langar mig að spyrja, hvernig eru fyrstu kaupendur skilgreindir? Á þetta bara við um fólk sem er að kaupa sína allra fyrst fasteign eða mun þetta líka eiga við þá sem áttu íbúð, seldu eða misstu hana einhverja hluta vegna, fóru út á leigumartröðina (fyrirgefðu, leigumarkaðinn) og vilja kaupa aftur?
19.-20. Gott, en hvað varð um fagra Ísland?
Jújú, ríkisstjórnin er búin að gera helling en betur má ef duga skal. Ég skal segja eins og er að Samfylkingin fékk mitt atkvæði í seinustu kosningum en ég er efins um að hún fái það í næstu kosningum ef hún fer ekki að gera meira í ríkisstjórninni, þá sérstaklega standa við þau loforð sem hún gaf okkur í kosningabaráttunni. Og það er ekki nóg að standa sig í velferðarmálunum, það verður líka að gera eitthvað af viti annars staðar. Staðreyndin er sú að á flestum sviðum er Samfylkingin bara búin að vera að elta og sleikja upp félaga sína í Sjálfstæðisflokknum.
Af hverju er Björn Bjarna til dæmis ennþá ráðherra? Af hverju beitti Samfylkingin sér ekki fyrir því að þessi maður, sem ekkert hefur í ráðherrastól að gera og hefur aldrei haft, væri settur til hliðar? Af hverju heyrðist ekki meira í Samfylkingunni vegna ráðningar Þorsteins Davíðssonar sem héraðsdómara, þá sérstaklega flokksforystunni?
Svona mætti telja upp ansi margar spurningar en ég held að þessi pistill sé orðinn alveg nógu langur í bili.
mbk,
Bergþór H.
Stjórnmál og samfélag | 8.5.2008 | 03:25 (breytt kl. 07:07) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Færsluflokkar
Bloggvinir
Jan. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar