Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Tæpt, því miður.

Tillagan felld með 32 nei á móti 30 já.  Afskaplega þykir mér þetta sorgleg niðurstaða.  Þá liggur eftir spurningin hvort að Jóhanna og Steingrímur sjái að sér og segi af sér sjálf.  En það mun væntanlega ekki gerast.  Ég geri frekar ráð fyrir að þau tvö muni halda dauðagripi í sína ráðherra stóla.  Get svo sem vel skilið það.

Vandamálið er hins vegar það að með þau tvö á þessum stólum þá er annars vegar þingi og þjóð haldið í gíslingu valdsjúkra eiginhagsmunaseggja sem eru í þokkabót svo veruleikafyrrt að þau geta ekki séð, hvað þá trúað, hversu heitt þjóðin vill fá þau frá.  Enda vanhæf með öllu.  Verst er samt hversu margt samflokksfólk þeim hefur tekist að heilaþvo með bullinu í sér.  Enda var það nokkuð augljóst af ræðum sumra stjórnarliða í kvöld að þau voru alveg jafn veruleikafyrrt og skötuhjúin.

Hins vegar þá hafa þau, ásamt nánum samstarfsaðilum, valdið vinstra sinnuðu fólki í landinu ómældum skaða.  Það verður, að ég held, langt að bíða þess að þjóðin þori aftur að kjósa yfir sig vinstri stjórn.  Og þá held ég að breyti litlu hversu mjög möguleg framtíðar vinstri stjórn/flokkur myndi reyna að sannfæra fólkið í landinu að vinstri stefnan feli meira í sér heldur en eintómar skattahækkanir á skattahækkanir ofan.

Hefði vinstri stefnunni verið fylgt í reynd þá hefði það ekki falið í sér frystingu á bótum almannatryggingakerfisins í tvö ár.  Hvað þá að skerðingarnar hefðu verið auknar aftur, að kerfið hefði verið fært aftur um ein 5-7 ár.  Eitthvað hefði sömuleiðis verið reynt, í það minnsta, til að koma í veg fyrir hinar löngu biðraðir eftir matargjöfum frá hjálparsamtökum.  Það hefði ekki bara verið horft á raðirnar og sagt: Jah, það er ágætt að einhver er hjálpa þessu fólki.  Eða eins og sumir stjórnarliðar hafa sagt að þetta sé nú ekki til að hjálpa fólki að standa á eigin fótum.  Það hefði sömuleiðis verið settur fullur kraftur í það frá byrjun að búa til störf í stað þess að hafa fleiri þúsundir á atvinnuleysisskrá.  Það hefði verið unnið eftir viðhorfinu að atvinnulaust fólk væri að fá bætur og að þá væri nú heldur skárra að nýta þennan starfskraft í nauðsynleg störf.  Og jafnvel ekki það nauðsynleg.  Svona gæti ég talið lengi.

Það er nefnilega svo að það felst meira í vinstri stefnunni heldur en hærri skattar.  Vissulega er hluti af stefnunni skattar en þá á að koma þjónusta á móti.  Raunveruleg norræn vinstri velferð felur nefnilega heilmikið í sér.  Það er ekki nóg að hækka bara skattana og skera alls staðar niður og kalla sig svo norræna velferðarstjórn.  


mbl.is Vantrauststillaga felld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ætli þetta sé það sem Jóhanna átti við....

Þegar hún sagði að það þyrfti mögulega að leita leiða til að styrkja stjórnina.  Ætli við sjáum frétt á næstu vikum um að Guðmundur hafi gengið til liðs við Samfylkinguna?  Jafnvel bara seinna í þessari viku.  Ef svo verður þá er nú spurning hvort að Siv fylgi þá ekki með líka.
mbl.is Guðmundur sat hjá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klapp, klapp, klapp

Þó ég geti ekki sagt að ég sé sammála honum varðandi aðildarviðræðurnar þá get ég ekki annað en tekið ofan fyrir stjórnarliða sem þorir að fylgja eigin sannfæringu í stað þess að elta foringjann eins og rófulausir hundar.
mbl.is Styður ekki lengur ríkisstjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klukkutími til stefnu.

Nú, þegar þetta er skrifað, er rétt rúmur klukkutími til stefnu fyrir Jóhönnu og Steingrím að segja af sér til að bjarga ríkisstjórninni.  Skyldi það gerast?  Efast um það.  Það væri hins vegar mjög uppörvandi atburður ef að þessir forkálfar einnar verstu ríkisstjórnar sögunnar myndu taka ábyrgð og segja af sér ráðherrastól og helst þingsæti líka.  Kemur í ljós á eftir.
mbl.is Þurfa að færa fórnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það væri þolanlegur millivegur.

Ef að þau skötuhjúin myndu segja af sér þá væri mögulega hægt að bjarga þessari ríkisstjórn. Allavega út kjörtímabilið. Ég verð nefnilega að taka undir að ekki vil ég fá Sjálfstæðisflokkinn aftur í stjórn. Og líkurnar eru yfirgnæfandi á að það yrði niðurstaðan.  Ekki sé ég merki um að nokkuð nýtt afl sé á leiðinni.  Allavega ekki sem gæti skákað þeim.

Það eru nefnilega einstaklingar innan núverandi ríkisstjórnar sem eru actually að standa sig og standa á sínu.  Þar er einna augljósast hvernig Ögmundur er að standa sig.  En svo hafa heyrst mjög upplífgandi ummæli frá Guðbjarti velferðarráðherra líka.  

En af slæmum kostum er nóg að taka.  Málið er að reyna finna þann sem er skástur.  Og hvað sem það kostar þá þurfum við að losna við Jóhönnu og Steingrím. 


mbl.is Vildu vantraust á oddvita ríkisstjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru VG vísvitandi að reyna að eyðileggja flokkinn sinn.

Ekki það að ég myndi mikið gráta það þó sá flokkur myndi hverfa hér af sjónarsviðinu.  Ég held að fátt í stjórnmálum hafi meiri eyðileggingarmátt, til lengri tíma litið, en flokkur sem kennir sig við vinstri stefnuna en virðist ekki hafa hugmynd um hvað felst í þeirri stefnu.  Flokkur sem hefur aldrei kunnað neitt annað en að vera á móti á erfitt með að losa sig við þá venju þegar hann þarf svo allt í einu að vera með.  Enda sést það á því að það eina sem þessi flokkur virðist hafa afrekað síðan hann komst í stjórn er að hækka skatta án nokkurs tillits til hvers konar skaða hann er að valda.

Ekki það að Samfylkingin hafi staðið sig neitt betur.

Það sorglega er að í augnablikinu virðumst við eingöngu hafa val, væri boðið til kosninga núna, á milli flokkana sem ollu hruninu eða flokkana sem hafa sýnt það svart á hvítu að þau réðu ekkert við verkefnin sem þurftu að leysa.

Ég persónulega myndi kjósa Hreyfinguna miðað við valmöguleikana í dag, þó það væri ekki út af neinu öðru en að þau komu hvergi nálægt hruninu.  En ég myndi hins vegar vilja sjá þau taka út úr sinni stefnuskrá að þau ætli að flýja um leið og þau hafi uppfyllt sína stefnu.  Því ef þau kæmust til valda og tækist ætlunarverk sitt þá  myndi enginn vera eftir til að viðhalda ástandinu sem þau vilja koma á.


mbl.is Þuríður þingflokksformaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhanna og Steingrímur mörkuðu þá leið.

Ekki þjóðin.  Ekki höfðu þau fyrir því að spyrja þjóðina hvað hún vildi.  Þau ákváðu bara að víst að þjóðin var svo vitlaus að kjósa þau á þing þá mættu þau gera það sem þeim dytti í hug.  Þrátt fyrir að það væri margbúið að benda þeim á þetta væri ekki það sem þjóðin vildi þá héldu þau samt áfram.  Ruddust áfram eins og fílahjörð í postulínsbúð án þess að skeyta neitt um afleiðingarnar.

Ég skildi vel af hverju Davíð Oddson var orðinn uppfullur af valdhroka á sínum tíma (og er enn).  Skýringin á því var einfaldlega hversu lengi hann var búinn að sitja á valdastól.

En aldrei datt mér í hug að fólk gæti orðið svona yfirfullt af valdhroka á þetta stuttum tíma eins og hefur sýnt sig með Jóhönnu og Steingrím.  Miðað við hvernig þau haga sér þá mætti halda að þau hafi verið í stjórn seinustu 20 árin en ekki 2 ár.  

Jóhann og Steingrímur, hafið vit á að segja af ykkur áður en mannorð ykkar er algjörlega farið í vaskinn.  Þið getið ennþá bjargað ykkur fyrir horn með því að viðurkenna að þetta hafi verið ykkur ofviða og gengið í burtu með allavega þann virðingarvott að geta viðurkennt ósigur og að þið hafið haft rangt fyrir ykkur. 


mbl.is Ný leið mörkuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnarþingmenn athugið!!!

Gerið þjóðinni greiða og samþykkið þessa tillögu.  Ekki láta foringjaræðið stjórna ykkur.  Ekki láta ykkar eigin hagsmuni ráða.  Hugsið um hag þjóðarinnar.

 Sú ríkisstjórn sem þið vinnið fyrir hefur algjörlega mistekist verkefni sitt.  Horfist í augu við þá staðreynd og sýnið að þið séuð menn en ekki mýs, að þið hafið bein í nefinu og getið hugsað með einhverju öðru en veskinu ykkar og/eða valdþorsta.  

Kjósið með þessari tillögu og leyfið dauðri og vanhæfri ríkisstjórn að falla.


mbl.is Styðja vantrausttillöguna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þá getur maður bara vonað.

Nú getur maður bara vonað að órólega deildin innan VG sýni hvað í þeim býr og styðji vantrauststillöguna. Því þessi stjórn verður frá að fara.  Ekki er hægt að treysta á óánægða þingmenn Samfylkingarinnar þar sem þeir eru ákveðnir í að sitja sem fastast, alveg sama hvað það kostar.

Dugi þetta ekki til þá kalla enn og aftur eftir því að einhver með aðstöðu, fjármagn og kunnáttu komi af stað undirskriftasöfnun um afsögn ríkisstjórnarinnar. 

Svo er líka áhugavert að Jóhanna notar nánast orðrétt sömu rök gegn vantrausti og Geir H. Haarde gerði í nóvember 2008.  Og segir líka, eins og Geir, að þetta þjappi bara saman stjórninni. 


mbl.is Loksins, loksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undirskriftalista fyrir afsögn ríkisstjórnar?!?

Ljóst er að þessi ríkisstjórn er fallin, hún bara veit það ekki sjálf. Ef það þarf að meta styrk stjórnarinnar þá er nokkuð ljóst að þeim er samt sem áður farið að gruna að það sé ekki allt með felldu.  Því þarf að segja henni það svo það fari ekkert á milli mála og því sting ég upp á eftirfarandi:

Að einhver með fjármagn, kunnáttuna og aðstöðuna að setja um faglega og vel uppsetta undirskriftasöfnun um afsögn ríkisstjórnarinnar.  Undirskriftasöfnun sem verður eins nálægt því að vera hafin yfir allan vafa og hægt er svo að ekki sé hægt að gagnrýna hana svo vel sé.  Ég myndi gera það sjálfur en ég uppfylli því miður bara engin af skilyrðunum sem ég taldi upp í byrjun.


mbl.is Styrkur ríkisstjórnar metinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband