Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Meingallað

Þessar tillögur eru svo meingallaðar að það hálfa væri helv. hellingur. Einu hækkanirnar sem þessar tillögur fela í sér er til einstaklings sem býr einn í leiguhúsnæði og einstæðs foreldris með fjögur eða fimm börn í leiguhúsnæði. Bæturnar hjá einstaklingnum fara úr 18 þús. í 22 þús. kr. á mánuði ef þær eru óskertar. Og hjá einstæða foreldrinu væru fjórða og fimmta barnið talið með sem er ekki í núverandi húsaleigubótakerfi.
Hins vegar myndu bætur til einstæðs foreldris með eitt til þrjú börn í leiguhúsnæði lækka um 1500 - 2900 kr. á mánuði.
Þar að auki lækka bæturnar umtalsvert til þeirra sem eru í eigin húsnæði.
Og svo er annað; fólk sem eru með barnið eða börnin sín í jafnri umgengni við forsjárforeldrið fá enga uppbót á sínar húsnæðisbætur þrátt fyrir að það þurfi augljóslega stærra og dýrara húsnæði heldur en ef það byggi eitt.
Ekki er minnst einu orði á þennan hóp, sem fer sístækkandi, og því er varla hægt að gera ráð fyrir öðru en að enn og aftur sé gengið fram hjá umgengnisforeldrum.
mbl.is Gæti kostað 23-27 milljarða á ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hið pólítíska vald

Þetta mál í heild sinni hefur sýnt svo ekki verður um villst hversu meingölluð lögin um Landsdóm eru. Það er nefnilega bara þannig að það er út í hött að kjörnir fulltrúar (hið pólítíska vald) geti tekið ákvörðun um hvort eigi að ákæra aðra núverandi eða fyrrverandi kjörna fulltrúa vegna glæps sem var eða var ekki framinn.
Ég er vissulega fylgjandi því að einhverja hefði átt að draga til ábyrgðar fyrir hrunið. En það hefði að sjálfsögðu átt að ákæra alla fjóra sem til voru nefndir og leyfa síðan Landsdómi að vinna sína vinnu eða sleppa þeim öllum. Með því að taka einn af þessum einstaklingum út fyrir svigann missti þingheimur allt traust til að geta verið einhvers konar ákvörðunarvald þegar kæmi að svona málum.
Að þessu sögðu þá verð ég samt að vera sammála henni Ólínu, allavega að forminu til, að það lítur ekki vel út ef Alþingi fer að skipta sér af málinu aftur og meira.
Fyrir utan að það hlýtur nú að vera betra fyrir Geir, víst að þetta fór svona á annað borð, að málið sé klárað. Þar með yrði kominn endanlegur dómur um sekt eða sakleysi hans og þar með möguleika á uppreisn æru á einhverjum tímapunkti. Ef málið verður hins vegar ekki klárað þá mun þetta hanga yfir honum það sem eftir er, og þá er ég ekki að meina til hans æviloka heldur væntanlega til endiloka íslensks lýðveldis, svo ég leyfi mér svona einu sinni að vera pínu dramatískur.
mbl.is Skoða frávísun á frávísun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vekur athygli

Þessi frétt snýr náttúrulega öllu á hvolf varðandi hvað það er sem vekur athygli. Það vekur mun meiri athygli í mínum huga að FIMM erlend fyrirtæki skyldu hafa haft frumkvæði að því að skrá sig heldur en einhver stórfyrirtæki á borð við Microsoft og Adobe hafi ekki skráð sig.
Þessi lög eru nefnilega með þeim kjánalegri sem ég hef séð í lengri tíma, eingöngu vegna þess að með þeim er íslenskur löggjafi að ímynda sér að erlend fyrirtæki séu almennt að fylgjast með íslenskri löggjöf. Fólk verður bara að átta sig á því að íslenskur markaður er svo lítill að fæst erlend fyrirtæki sjá hag í því að fylgjast með löggjöfinni hérna. Það er í raun jafn líklegt að stórt erlent fyrirtæki loki einfaldlega á íslenskan markað frekar en að skrá sig sérstaklega hérna á landi til að geta skilað inn pínulitlum virðisaukaskatti.
mbl.is Rafrænar vörur hækka í verði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er dómurinn trúverðugur?

Þarna fá tveir dómarar og þar með dómurinn sjálfur kjörið tækifæri til að sýna hversu trúverðugur hann er.  Réttast væri að sjálfsögðu að þessir tveir dómarar lýstu yfir vanhæfni.  Og ef ekki þá þurfa þeir að rökstyðja þá ákvörðun allhressilega.  Ákveði þessir tveir dómarar ekki að segja sig frá málinu þá þarf forseti dómsins að stíga inn í og sinna sínu hlutverki.
mbl.is Tveir EFTA-dómarar vanhæfir?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kemur nú ekki mikið á óvart

Það er nú ekki hægt að segja að þessi niðurstaða komi neitt sérstaklega á óvart.  ESA hefur margítrekað þessa skoðun sína og var þeim varla stætt á öðru en að stefna okkur fyrir EFTA dómstólinn eftir þær yfirlýsingar sem ESA hefur gefið út á undanförnum árum.

Ég held að flest okkar sem kusu nei hafi gert ráð fyrir því að ESA myndi stefna okkur en við kusum samt nei þar sem að við vorum að "veðja" á að jafnvel þó að dómstóllinn myndi dæma okkur í óhag myndi það samt vera kostnaðarminna heldur en að samþykkja samninginn.  Fyrir mitt leyti kemur þar inn í hugarfar sem mér var kennt í minni fyrstu hjálpar þjálfun og er hægt að nota á ýmsum öðrum stöðum í lífinu eða "ávinningur vs. áhætta".  Er ávinningurinn af því sem ég geri áhættunnar virði?

Þegar kom að ICESAVE málinu þá taldi ég svo vera og kaus því nei.  Rökin sem ég kaus að hafa til hliðsjónar þá voru í raun þríþætt:  Í fyrsta lagi var möguleiki á að ESA myndi láta málið falla niður hjá þeim og þá væri þetta úr sögunni (ekki mjög líklegt), í öðru lagi að dómstóllinn myndi annað hvort dæma okkur í vil eða láta málið falla niður ef ESA myndi á annað borð stefna okkur og í þriðja lagi að líklegur kostnaður af því að tapa málinu fyrir dómstólnum yrði lægri heldur en kostnaðurinn við að samþykkja samninginn.

Ég tel enn vera nokkuð líklegt að dómstóllinn muni dæma okkur í vil eða fella málið niður en jafnvel þó að við töpum því eru samt góðar líkur á að kostnaðurinn við það yrði lægri heldur enn samningurinn hefði kostað.  Rökin á bakvið það eru þau að íslenskir dómstólar munu hafa lokaorðið um mögulega greiðslu- og skaðabótaskyldu íslenska ríkisins.  Og burt séð frá öllum öðrum málsatriðum í þessu máli þá yrði sú skylda alltaf dæmd í íslenskum krónum.  Sem þýðir fyrst og fremst að það yrði engin gengisáhætta samhliða slíku tapi í málaferlunum. 

Hitt sem skiptir máli varðandi endanlega niðurstöðu er að það væru þokkalegar líkur á að ekki yrðu dæmdir neinir vextir á greiðsluskylduna þar sem það tíðkast ekki í íslensku réttarfari sé upphæðin fyrirfram ákveðin, í þessu tilviki 20.887 evrur.  Og jafnvel þó að það yrðu dæmdir vextir þá yrðu þeir líklega reiknaðir frá og með dómsuppkvaðningardegi en ekki frá því að bankinn hrundi.  Stóra spurningin yrði að öllum líkindum við hvaða gengi íslenskir dómstólar myndu miða við dómsuppkvaðningu.


mbl.is ESA stefnir Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjórflokkinn þarf að fella

Þessi könnun sýnir svart á hvítu það sem ég hef talað um áður hérna á blogginu mínu; þjóðin vill fá nýtt alvöru framboð. Framboð sem hún getur treyst. Helst með fólki sem ekki hefur verið viðriðið stjórnmál áður þar sem það er ekki hægt að treysta gömlum pólitíkusum. Þá er bara spurningin hvað vill þjóðin raunverulega sjá í nýju framboði? Vill hún fá enn eitt framboðið sem titlar sig hægri eða vinstri, rautt eða blátt? Eða er kannski að opnast smuga fyrir framboð sem skilgreinir sig ekki samkvæmt þessum gamla úrelta kvarða? Ég sé fyrir mér framboð sem vill styrkja innri stoðir þjóðfélagsins, velferðar-, mennta- og heilbrigðiskerfið en jafnframt styrkja markaðinn og atvinnulífið. Lágmarks ríkisafskipti af fyrirtækjum og einstaklingum en þó nógu mikið til að það verði ekki skaðlegt. Koma fjárfestingum af stað aftur. Umhverfisvænt að því leytinu til að það er ekki virkjað bara til þess að virkja en ef það þarf að virkja þá er það gert. Svona mætti lengi telja, en það eru vissulega bara mínar skoðanir. Þessi skoðanakönnun sýnir hins vegar að ef það kemur nógu sterkt framboð fram, nógu tímanlega til að það geti kynnt sig og sínar áherslur nægjanlega vel fyrir kosningar þá mun fjórflokkurinn falla.


mbl.is Sjálfstæðisflokkurinn stærstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn meiri kjánahrollur

Það er nú ekki hægt að segja að álitið á þessu framboði hafi skánað við að sjá þetta viðtal. Þau virðast ekki hafa hugmynd um hvað þau ætla sér að gera, sem sést nú líklega best á því að þau hafa ekki einu sinni getað fundið nafn á framboðið.

Svo er nú ekki hægt að kalla þessa stefnu þeirra annað en lista yfir faguryrði sem ekkert skipulag er á en gæti fallið vel í kramið hjá þeim sem eru orðin yfir sig þreytt á fjórflokknum. Fólk sem þyrstir í eitthvað nýtt, alveg sama hvað það er svo lengi sem það er ekki fjórflokkurinn.

Segi bara að kjánahrollurinn heldur áfram.

Vísa í fyrri færslu mína um skoðun mína á hvað vantar í íslenskt stjórnmálalíf.


mbl.is Kannski fleiri en einn formaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjánahrollur

Þetta er nú ekki það sem þjóðina vantar, meira af fólki sem lítur á stjórnmál sem brandara og nú á landsvísu. Vissulega hefur pólitík á Íslandi undanfarið verið einhvers konar lélegur brandari sem er meira sorglegur en fyndinn.
Því er enn nauðsynlegra að koma meiri alvöru inn í stjórnmálin heldur en að bæta í kjánalegheitin. Ég í það minnsta er fastur með kjánahrollinn eftir að hafa lesið þessa grein.
Það sem vantar hérna er raunverulegur valkostur við fjórflokkinn. Afl sem er tilbúið að taka almennilega á málunum. Koma atvinnulífinu almennilega af stað aftur í staðinn fyrir að rífa það endalaust niður. Koma samkeppni af stað aftur í stað þess að yppa bara öxlum yfir að flest stóru fyrirtækin í flestum greinum séu komin í eigu bankanna og starfa áfram á markaði í skjóli eigenda sinna. En jafnframt leiðrétta það mergsog sem núverandi ríkistjórn hefur stundað á innviðum þjóðfélagsins, heilbrigðis-, velferðar- og menntakerfinu.
mbl.is Nýtt nafnlaust stjórnmálaafl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að berja hausnum við vegg.

Að gagnrýna þessa ríkisstjórn er farið að verða svolítið eins og að berja hausnum við vegg, vont og gagnslaust að því er virðist.

Samkvæmt yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því í maí á þessu ári áttu bætur almannatrygginga að hækka í samræmi við launahækkanir á almennum markaði.  Í þessu fólgst að bæturnar hækkuðu nú í sumar um a.m.k. 12 þús. kr. eins og lægstu laun á markaði.  Að vísu settu þeir prósentuhækkun á þær þar sem erfitt er að koma krónutöluhækkun rétt á þegar um er að ræða marga mismunandi bótaflokka.

Hefði stjórnin fylgt eigin fordæmi þá ættu bætur almannatrygginga að hækka um a.m.k. 11 þús. kr. á næsta ári í samræmi við hækkun lægstu launa.  En þess í stað ætlar stjórnin að hækka bæturnar, sem og ýmislegt annað líka, um 3,5%.  Það þýðir hækkun upp á tæpar 7 þús. kr. fyrir einstakling sem er eingöngu með örorku- eða ellilífeyri, þ.e.a.s. engar aðrar tekjur, hvaða nafni sem þær nú nefnast.

En þau ætla ekki að stoppa þar.  Ákveðið hefur verið að hækka ekki tvo bótaflokka með þeim rökum að þessir tveir bótaflokkar séu ekki jafn mikilvægir til framfærslu þeirra sem þá þiggja eins og aðrir bótaflokkar.  Það á sem sagt hvorki að hækka barnalífeyri né aldurstengdu örorkuuppbótina.  Þess má geta að aldurstengda örorkuuppbótin er jafnhá einföldum örorkulífeyri sé hún óskert.  Þetta þýðir að í fyrsta skiptið síðan þessari uppbót var komið á er verið að slíta hana í sundur frá lífeyrinum.

Og enn stoppa þau ekki.  Því að fyrir utan að það á ekki að hækka aldurstengdu uppbótina þá á líka að breyta útreikningunum á henni til að spara 200 milljónir.  Og þau hafa ekki einu sinni sóma í því að taka fram hvernig nákvæmlega á að breyta útreikningnum, það á bara eftir að koma ljós þegar kemur að árlegum lögum um breytingar á fjárhæðum almannatrygginga.  Og ef þau fylgja hefðinni þá verða þau lög ekki kláruð fyrr en rétt fyrir jól eða jafnvel á milli jóla og nýárs.

Og þá komum við að rúsínunni í pylsuendanum á þessu tauti mínu.  Fjármálaráðherra og stjórn hreykja sér mikið af því að hafa hækkað þennan flokk mikið á árinu en gleyma alveg að taka fram að þessi hækkun er ekki nema brot af þeirri hækkun sem þessi flokkur hefði átt að fá ef stjórnin hefði ekki fryst hækkanir á þessu sviði bæði áramótin 2009-10 og 2010-11 og að einungis 50% af hækkuninni sem átti að koma áramótin 2008-09 skilaði sér.

Fullar örorkubætur einstaklings sem hefur engar aðrar tekjur eru í dag um 196 þús. kr en ættu að vera um 225 þús. kr. ef að þessi ríkisstjórn hefði ekki ítrekað samþykkt lög sem felldu út ákvæði um hækkanir almannatrygginga.


mbl.is Breyta aldurstengdri örorku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þingmenn eru eingöngu bundnir af eigin sannfæringu.

Þrátt fyrir að mér hugnist ekki viðhorf hans á ýmsum sviðum þá hefur hann, ásamt Atla og Lilju, alla mína virðingu.  Mikið vildi ég að fleiri þingmenn þyrðu að standa með sjálfum sér.  Að þeir væru ekki flest allir eins og barðir hundar í stuttri ól formanna sinna.
mbl.is Segir sig úr þingflokknum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband