Færsluflokkur: ICESAVE

Er dómurinn trúverðugur?

Þarna fá tveir dómarar og þar með dómurinn sjálfur kjörið tækifæri til að sýna hversu trúverðugur hann er.  Réttast væri að sjálfsögðu að þessir tveir dómarar lýstu yfir vanhæfni.  Og ef ekki þá þurfa þeir að rökstyðja þá ákvörðun allhressilega.  Ákveði þessir tveir dómarar ekki að segja sig frá málinu þá þarf forseti dómsins að stíga inn í og sinna sínu hlutverki.
mbl.is Tveir EFTA-dómarar vanhæfir?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kemur nú ekki mikið á óvart

Það er nú ekki hægt að segja að þessi niðurstaða komi neitt sérstaklega á óvart.  ESA hefur margítrekað þessa skoðun sína og var þeim varla stætt á öðru en að stefna okkur fyrir EFTA dómstólinn eftir þær yfirlýsingar sem ESA hefur gefið út á undanförnum árum.

Ég held að flest okkar sem kusu nei hafi gert ráð fyrir því að ESA myndi stefna okkur en við kusum samt nei þar sem að við vorum að "veðja" á að jafnvel þó að dómstóllinn myndi dæma okkur í óhag myndi það samt vera kostnaðarminna heldur en að samþykkja samninginn.  Fyrir mitt leyti kemur þar inn í hugarfar sem mér var kennt í minni fyrstu hjálpar þjálfun og er hægt að nota á ýmsum öðrum stöðum í lífinu eða "ávinningur vs. áhætta".  Er ávinningurinn af því sem ég geri áhættunnar virði?

Þegar kom að ICESAVE málinu þá taldi ég svo vera og kaus því nei.  Rökin sem ég kaus að hafa til hliðsjónar þá voru í raun þríþætt:  Í fyrsta lagi var möguleiki á að ESA myndi láta málið falla niður hjá þeim og þá væri þetta úr sögunni (ekki mjög líklegt), í öðru lagi að dómstóllinn myndi annað hvort dæma okkur í vil eða láta málið falla niður ef ESA myndi á annað borð stefna okkur og í þriðja lagi að líklegur kostnaður af því að tapa málinu fyrir dómstólnum yrði lægri heldur en kostnaðurinn við að samþykkja samninginn.

Ég tel enn vera nokkuð líklegt að dómstóllinn muni dæma okkur í vil eða fella málið niður en jafnvel þó að við töpum því eru samt góðar líkur á að kostnaðurinn við það yrði lægri heldur enn samningurinn hefði kostað.  Rökin á bakvið það eru þau að íslenskir dómstólar munu hafa lokaorðið um mögulega greiðslu- og skaðabótaskyldu íslenska ríkisins.  Og burt séð frá öllum öðrum málsatriðum í þessu máli þá yrði sú skylda alltaf dæmd í íslenskum krónum.  Sem þýðir fyrst og fremst að það yrði engin gengisáhætta samhliða slíku tapi í málaferlunum. 

Hitt sem skiptir máli varðandi endanlega niðurstöðu er að það væru þokkalegar líkur á að ekki yrðu dæmdir neinir vextir á greiðsluskylduna þar sem það tíðkast ekki í íslensku réttarfari sé upphæðin fyrirfram ákveðin, í þessu tilviki 20.887 evrur.  Og jafnvel þó að það yrðu dæmdir vextir þá yrðu þeir líklega reiknaðir frá og með dómsuppkvaðningardegi en ekki frá því að bankinn hrundi.  Stóra spurningin yrði að öllum líkindum við hvaða gengi íslenskir dómstólar myndu miða við dómsuppkvaðningu.


mbl.is ESA stefnir Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki svo flókið að fara í mál en....

Málið getur hins vegar haft mjög flóknar afleiðingar. Ég get svo sem ekki fullyrt að Bretar og Hollendingar fari ekki í mál, sérstaklega ekki eftir yfirlýsingar þeirra frá því í dag. En það fer ekkert á milli mála að á heildina litið munu þeir tapa meiru á að fara í mál heldur en að láta þetta bara gleymast.

Það eru nefnilega bara tvær niðurstöður í boði, annað hvort vinna þeir málið eða tapa.

Vinnist málið fyrir dómstólum þá verður komið fordæmi fyrir því að það sé full ríkisábyrgð á innistæðutryggingum.   Sem er nokkuð sem ekkert ríki getur staðið undir verði allsherjarhrun bankakerfis í landinu.  Við gátum það ekki og enn þá síður munu lönd eins og Bretland sjálft geta það.  Þetta er eitthvað sem enginn innan ESB vill sjá.

Á hinn bóginn geta þeir tapað málinu fyrir dómstólum og þá kemur í ljós að við, almenningur í landinu en ekki ríkisstjórn, höfðum rétt fyrir okkur allan tímann.  Sem mun þýða þvílíka álitshnekki fyrir bæði Breta og Hollendinga fyrir að hafa verið að níðast á örþjóð einhvers staðar úti í ballarhafi vegna skiptimyntar.  Þar sem að þó upphæðirnar fyrir okkur hafi verið allt annað en skiptimynt þá var þetta ekkert annað fyrir Bretum og Hollendingum.  Þetta var eingöngu gert til að sýna fram á yfirburði þessa fyrrum nýlenduherra yfir litla Íslandi.  Þeim mistókst. 


mbl.is Það getur orðið flókið að fara í mál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ef ekki nú, hvenær þá?

Hversu skýr þurfa skilaboðin til ykkar eiginlega að vera til að þið skiljið að tími ykkar er liðinn? Þarf virkilega að fara í aðra búsáhaldabyltingu til að þið segið af ykkur? Að drulla upp á bak byrjar ekki einu sinni að lýsa störfum þessarar svokölluðu "Vinstri, norrænu velferðarstjórn".

Verst er að jafnvel þó að þessi stjórn myndi segja af sér og boðað yrði til kosninga þá er ekkert í boði til að kjósa sem væri skárra, nema þá mögulega Hreyfingin ef hún gæti þá stillt upp listum í tæka tíð.  Ég er ansi hræddur um að við fengjum sjálfstæðisflokk og framsókn aftur í stjórn ef það yrði kosið nú.

 Ég segi aftur það sem ég hef áður sagt, við þurfum nýtt raunverulegt stjórnmálaafl í þessu landi okkar.  Stjórnmálaafl sem raunverulega stendur við það að breyta stjórnskipan landsins og ýta út gömlum starfsháttum sem mikið til hafa byggst á spillingu og góðvinagreiðasemi.  Hefði ég fjármagnið og tengslanetið til þá myndi ég standa fyrir stofnun slíks afls en því miður þá hef ég hvorugt.


mbl.is Ekki tilefni til kosninga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svolítið kjánalegt....

Að halda því fram að við fáum hlutlausa og greinargóða skýringu á samningunum frá sama fólkinu og sá um að semja. Að vísu minnist hann ekkert á hlutlausa skýringu en er það ekki nákvæmlega það sem við þurfum fyrst og fremst? Ég get ekki ætlast til þess að fá hlutlausa greiningu á samningi frá manni sem tók þátt í að útbúa samninginn. Það væri svipað og að ætlast til að fá hlutlaust mat á tertu ársins frá bakaranum sem bjó til uppskriftina að henni.
mbl.is Skýrir kostir í stöðunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undrandi??

Það kemur mér mest á óvart að þau skuli vera undrandi yfir þessu. Ólafur Ragnar er búinn að setja ákveðið fordæmi varðandi hvað þarf að gera til að koma málum í þjóðaratkvæði. Ef hann færi að brjóta út frá því fordæmi væri næsta víst að hann neyddist til að segja af sér embætti. Þar fyrir utan, eins og hann sagði sjálfur, þá er þetta framhald af Icesave II og það hefði skotið skökku við ef við, þjóðin, hefðum ekki fengið að klára það mál.

Þá er bara að fylkja liði á kjörstaði og segja nei við þessum lögum. Um að gera að kjósa til stjórnlagaþings í leiðinni. Og kjörstjórnir landsins, væruð þið til í að fara að lögum um almennar kosningar í þetta sinn.


mbl.is Undrast mjög ákvörðun forseta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Opið bréf til Forseta Íslands

Hér með skora ég á þig að staðfesta ekki lög þau er samþykkt voru þann 16. febrúar 2011 um heimild til handa fjármálaráðherra til að staðfesta samninga,
sem áritaðir voru í London 8. desember 2010, um ábyrgð á endurgreiðslu
Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta til breska og hollenska ríkisins á kostnaði af greiðslu lágmarkstryggingar til innstæðueigenda í útibúum Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og Hollandi og greiðslu eftirstöðva og vaxta af þeim skuldbindingum.

Þegar þessi færsla er skrifuð þá hafa verið skráðar 38.167 undirskriftir á síðu kjosum.is þar sem þú ert hvattur til að neita að staðfesta fyrrnefnd lög. Viljir þú vera samkvæmur sjálfur þér þá ber þér að neita að staðfesta þessi lög. Árið 2004 barst þér undirskriftarlisti með nöfnum 31.752 Íslendinga sem vildu ekki að þú staðfestir lög um fjölmiðla.
Eins og flestir vita þá kom þáverandi þing i veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um þau lög með því að samþykkja frekar önnur lög sem felldu þau fyrri úr gildi. Þrátt fyrir frekar skýr ákvæði í stjórnarskrá Íslands þá komu samt upp spurningar um hvort þér væri yfirhöfuð heimilt að vísa lögum til þjóðaratkvæðisgreiðslu og upp komu háværar raddir um að breyta þyrfti stjórnarskrá í þá veru að fjarlægja þetta ákvæði úr henni. En það hefur ekki enn verið gert.
Með þessu gafstu ákveðið fordæmi sem ég tel að þú hljótir að fylgja eftir. Þegar lög um Icesave II voru samþykkt barst þér aftur undirskriftarlisti, í þetta skiptið með nöfnum 56.089 einstaklinga sem hvöttu þig til að neita að staðfesta þau lög. Og aftur gerðir þú það en í þetta skiptið rötuðu lögin til þjóðaratkvæðisgreiðslu þar sem 98,1% gildra atkvæða sögðu nei við því að lögin ættu að taka gildi.
Í undanfara þeirra kosninga voru margir sem sögðu þjóðina ekki vera færa um að kjósa um svo flókin málefni, þar með talinn hæstvirtur fjármálaráðherra, ef ég man rétt. Aðra eins óvirðingu gagnvart þjóðinni hef ég sjaldan séð af einum af hæst settu einstaklingum þjóðarinnar. Það sem kemst kannski næst því er hin snilldarlausn sem þáverandi forsetis- og utanríkisráðherrar komu með 2004 að fella bara lögin úr gildi.
Með því að neita að staðfesta lög öðru sinni eftir að hafa fengið afhentan undirskriftarlista þá einungis styrktir þú fordæmið sem þú gafst eftir fyrra skiptið.
En af öðrum ástæðum fyrir að þú eigir að neita að staðfesta þessi lög líka má nefna að þessi lög og samningurinn sem þau fjalla um eru með réttu einungis framhald af lögunum sem þú neitaðir að staðfesta seinast og því er rökrétt að leyfa þjóðinni að kjósa aftur um þau. Annað er að þingheimur felldi breytingartillögu um að þessi lög ættu að fara í þjóðaratkvæði með naumum meirihluta 33 atkvæðum gegn 30. Og mátti auðveldlega skilja orð Árna Páls þegar hann gerði grein fyrir atkvæði sínu um þá breytingartillögu að enginn þingmaður Samfylkingarinnar myndi styðja slíka breytingartillögu þannig að þingmenn þess flokks væru tilneyddir til að segja nei. Það verður að athugast að það hefðu einungis tveir þingmenn stjórnarinnar í viðbót þurft að svíkja lit til að þessi lög hefðu farið í þjóðaratkvæði.

Það er mitt mat að þau atriði sem ég hef nú þegar talið til ættu að duga fyrir þig að ákveða að neita að staðfesta þessi lög en til að bæta um betur þá vil ég minna á að það eru einungis 44 einstaklingar sem hafa samþykkt þessi lög. Lög sem eru framhaldstilraun af lögum sem 134.392 einstaklingar samþykktu ekki.

Er ekki rökrétt og sanngjarnt að þjóðin fái aftur að meta kosti og galla þessara laga í almennum kosningum?


mbl.is Forsetinn fékk frumvarpið í kvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tíma illa varið

Spurning hversu mörgum raunverulega mikilvægum málum hefði verið hægt að koma í gegnum þingið hefðu þessum 208 tímum verið varið í þau í staðinn fyrir þetta eina mál. Alls ekki misskilja mig, þetta mál er mjög mikilvægt en það hefði ekki átt að þurfa nema smá stund, brot af þessum 208 tímum, að komast að hinni einu réttu niðurstöðu: VIÐ EIGUM EKKI AÐ BORGA ICESAVE.
En því miður er það svo að meirihluti þeirra sem sitja á þingi þora ekki öðru en að láta gömlu heimsveldin kúga sig og þar með þjóðina alla. Þau þora ekki að taka áhættuna á að farin verði dómstólaleiðin því þau halda að við munum tapa því dómsmáli.

Mín kenning er hins vegar sú að Bretar og Hollendingar muni aldrei fara dómstólaleiðina að eigin frumkvæði, alveg sama hvað gengur á. Þeir muni hins vegar, ef svo fer að forseti vors neiti aftur að skrifa undir lögin (sem ég vona að gerist) og þjóðin segir aftur nei, bjóða okkur enn þá betri samning og svo enn betri samning eftir það.

Ástæðan fyrir því að þeir muni aldrei fara í mál við okkur að eigin frumkvæði er að það væri alltaf "lose/lose situation" hjá þeim. Á aðra höndina gætu þeir unnið og Ísland verið skikkað til að borga allt saman en þá væri komið dómafordæmi fyrir því að tryggingasjóðir innistæðna væru með ríkisábyrgð og hvorug þjóðin gæti staðið undir því ef þeirra eigin bankakerfi myndi hrynja og þá sérstaklega ekki Bretland. Það þyrfti meira að segja ekki nærri jafn stórt hrun á þeirra mælikvarða til að þeir gætu ekki staðið undir því. Og á hinn bóginn ef þeir myndu tapa því máli og þar af leiðandi kæmi í ljós að við hefðum haft réttinn okkar megin þá væri það "PR Disaster" fyrir bæði Hollendinga og Breta. Þar með væri það staðfest að þessar stóru þjóðir hafi á óréttmætan hátt þvingað litla Ísland til samningagerðar og reynt að þvinga okkar litlu þjóð til að skuldsetja sig í fleiri ár án þess að það væru lagaleg rök með því.

Hér með hvet ég Forseta vor, Ólaf Ragnar Grímsson, til að neita að staðfesta þessi(ó)lög og vísa þessu til þjóðaratkvæðis. Á þann hátt getur meirihluti þjóðarinnar ákveðið að steypa okkur í skuldafen næstu 35 árin eða staðið uppi á móti stóru þjóðunum. Á hvorn veginn sem sú atkvæðagreiðsla færi þá væru í það minnsta aðeins fleiri heldur en 44 hræður sem hefðu valið fyrir þjóðina. Aðeins meira heldur en 0,014% prósent þjóðarinnar sem hefðu valið fyrir hin 99,986% sem búa hér í þessu landi.


mbl.is Icesave-umræða í 208 stundir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband