Er dómurinn trúverðugur?

Þarna fá tveir dómarar og þar með dómurinn sjálfur kjörið tækifæri til að sýna hversu trúverðugur hann er.  Réttast væri að sjálfsögðu að þessir tveir dómarar lýstu yfir vanhæfni.  Og ef ekki þá þurfa þeir að rökstyðja þá ákvörðun allhressilega.  Ákveði þessir tveir dómarar ekki að segja sig frá málinu þá þarf forseti dómsins að stíga inn í og sinna sínu hlutverki.
mbl.is Tveir EFTA-dómarar vanhæfir?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kemur nú ekki mikið á óvart

Það er nú ekki hægt að segja að þessi niðurstaða komi neitt sérstaklega á óvart.  ESA hefur margítrekað þessa skoðun sína og var þeim varla stætt á öðru en að stefna okkur fyrir EFTA dómstólinn eftir þær yfirlýsingar sem ESA hefur gefið út á undanförnum árum.

Ég held að flest okkar sem kusu nei hafi gert ráð fyrir því að ESA myndi stefna okkur en við kusum samt nei þar sem að við vorum að "veðja" á að jafnvel þó að dómstóllinn myndi dæma okkur í óhag myndi það samt vera kostnaðarminna heldur en að samþykkja samninginn.  Fyrir mitt leyti kemur þar inn í hugarfar sem mér var kennt í minni fyrstu hjálpar þjálfun og er hægt að nota á ýmsum öðrum stöðum í lífinu eða "ávinningur vs. áhætta".  Er ávinningurinn af því sem ég geri áhættunnar virði?

Þegar kom að ICESAVE málinu þá taldi ég svo vera og kaus því nei.  Rökin sem ég kaus að hafa til hliðsjónar þá voru í raun þríþætt:  Í fyrsta lagi var möguleiki á að ESA myndi láta málið falla niður hjá þeim og þá væri þetta úr sögunni (ekki mjög líklegt), í öðru lagi að dómstóllinn myndi annað hvort dæma okkur í vil eða láta málið falla niður ef ESA myndi á annað borð stefna okkur og í þriðja lagi að líklegur kostnaður af því að tapa málinu fyrir dómstólnum yrði lægri heldur en kostnaðurinn við að samþykkja samninginn.

Ég tel enn vera nokkuð líklegt að dómstóllinn muni dæma okkur í vil eða fella málið niður en jafnvel þó að við töpum því eru samt góðar líkur á að kostnaðurinn við það yrði lægri heldur enn samningurinn hefði kostað.  Rökin á bakvið það eru þau að íslenskir dómstólar munu hafa lokaorðið um mögulega greiðslu- og skaðabótaskyldu íslenska ríkisins.  Og burt séð frá öllum öðrum málsatriðum í þessu máli þá yrði sú skylda alltaf dæmd í íslenskum krónum.  Sem þýðir fyrst og fremst að það yrði engin gengisáhætta samhliða slíku tapi í málaferlunum. 

Hitt sem skiptir máli varðandi endanlega niðurstöðu er að það væru þokkalegar líkur á að ekki yrðu dæmdir neinir vextir á greiðsluskylduna þar sem það tíðkast ekki í íslensku réttarfari sé upphæðin fyrirfram ákveðin, í þessu tilviki 20.887 evrur.  Og jafnvel þó að það yrðu dæmdir vextir þá yrðu þeir líklega reiknaðir frá og með dómsuppkvaðningardegi en ekki frá því að bankinn hrundi.  Stóra spurningin yrði að öllum líkindum við hvaða gengi íslenskir dómstólar myndu miða við dómsuppkvaðningu.


mbl.is ESA stefnir Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjórflokkinn þarf að fella

Þessi könnun sýnir svart á hvítu það sem ég hef talað um áður hérna á blogginu mínu; þjóðin vill fá nýtt alvöru framboð. Framboð sem hún getur treyst. Helst með fólki sem ekki hefur verið viðriðið stjórnmál áður þar sem það er ekki hægt að treysta gömlum pólitíkusum. Þá er bara spurningin hvað vill þjóðin raunverulega sjá í nýju framboði? Vill hún fá enn eitt framboðið sem titlar sig hægri eða vinstri, rautt eða blátt? Eða er kannski að opnast smuga fyrir framboð sem skilgreinir sig ekki samkvæmt þessum gamla úrelta kvarða? Ég sé fyrir mér framboð sem vill styrkja innri stoðir þjóðfélagsins, velferðar-, mennta- og heilbrigðiskerfið en jafnframt styrkja markaðinn og atvinnulífið. Lágmarks ríkisafskipti af fyrirtækjum og einstaklingum en þó nógu mikið til að það verði ekki skaðlegt. Koma fjárfestingum af stað aftur. Umhverfisvænt að því leytinu til að það er ekki virkjað bara til þess að virkja en ef það þarf að virkja þá er það gert. Svona mætti lengi telja, en það eru vissulega bara mínar skoðanir. Þessi skoðanakönnun sýnir hins vegar að ef það kemur nógu sterkt framboð fram, nógu tímanlega til að það geti kynnt sig og sínar áherslur nægjanlega vel fyrir kosningar þá mun fjórflokkurinn falla.


mbl.is Sjálfstæðisflokkurinn stærstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að skjóta sig í fótinn

Talandi um að tækla málið snarvitlaust. Hefði Bingi og co. raunverulega verið að hugsa annars vegar um hag sinna miðla og hins vegar um faglega fjölmiðlun þá hefði ritstjóri Pressunnar verið rekinn með skömm. Þar á eftir hefði mátt skoða hvort að "blaðamanninum" sem fékk þessa hugdettu að birta mynd af fórnarlambi meintrar nauðgunnar væri stætt á því að fá að halda áfram störfum í þessari grein. Svo hefði Vefpressan gefið út yfirlýsingu þar sem það væri mjög harmað að þetta atvik hefði átt sér stað og að þeir aðilar sem borið hefðu ábyrgð á atvikinu væru hættir störfum frá og með núna.

Afsökunarbeiðnir ritstjóra Pressunnar er eingöngu hænuskref í rétta átt. "Æ, úbs, fyrirgefðu, ég áttaði mig ekki á hvað þetta væri rangt" er ekki nægjanlegt til að taka ábyrgð á jafn alvarlegu athæfi og þetta var. Hvað þá að hin svokallaða afsökunarbeiðni skuli hafa innihaldið réttlætingu á gjörðinni sem ritstjóri heldur síðan fram í framhaldsafsökunarbeiðni að hafi ekki verið réttlæting. Hefði hann haft frumkvæði að því að segja af sér strax þá hefði mögulega verið hægt að taka hann alvarlega.

En í stað þess að taka rétt á málinu þá ætla þeir að snúa vörn í sókn og sækja þá sem hafa gagnrýnt þá sem hæst til saka fyrir ærumeiðingar og að hafa valdið fyrirtækinu skaða?!? Það var enginn sem olli fyrirtækinu jafnmiklum skaða og fyrrgreindur ritstjóri. Mun fyrirtækið fara í mál við hann þá líka?


mbl.is Vefpressan höfðar mál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn meiri kjánahrollur

Það er nú ekki hægt að segja að álitið á þessu framboði hafi skánað við að sjá þetta viðtal. Þau virðast ekki hafa hugmynd um hvað þau ætla sér að gera, sem sést nú líklega best á því að þau hafa ekki einu sinni getað fundið nafn á framboðið.

Svo er nú ekki hægt að kalla þessa stefnu þeirra annað en lista yfir faguryrði sem ekkert skipulag er á en gæti fallið vel í kramið hjá þeim sem eru orðin yfir sig þreytt á fjórflokknum. Fólk sem þyrstir í eitthvað nýtt, alveg sama hvað það er svo lengi sem það er ekki fjórflokkurinn.

Segi bara að kjánahrollurinn heldur áfram.

Vísa í fyrri færslu mína um skoðun mína á hvað vantar í íslenskt stjórnmálalíf.


mbl.is Kannski fleiri en einn formaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjánahrollur

Þetta er nú ekki það sem þjóðina vantar, meira af fólki sem lítur á stjórnmál sem brandara og nú á landsvísu. Vissulega hefur pólitík á Íslandi undanfarið verið einhvers konar lélegur brandari sem er meira sorglegur en fyndinn.
Því er enn nauðsynlegra að koma meiri alvöru inn í stjórnmálin heldur en að bæta í kjánalegheitin. Ég í það minnsta er fastur með kjánahrollinn eftir að hafa lesið þessa grein.
Það sem vantar hérna er raunverulegur valkostur við fjórflokkinn. Afl sem er tilbúið að taka almennilega á málunum. Koma atvinnulífinu almennilega af stað aftur í staðinn fyrir að rífa það endalaust niður. Koma samkeppni af stað aftur í stað þess að yppa bara öxlum yfir að flest stóru fyrirtækin í flestum greinum séu komin í eigu bankanna og starfa áfram á markaði í skjóli eigenda sinna. En jafnframt leiðrétta það mergsog sem núverandi ríkistjórn hefur stundað á innviðum þjóðfélagsins, heilbrigðis-, velferðar- og menntakerfinu.
mbl.is Nýtt nafnlaust stjórnmálaafl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband