Að berja hausnum við vegg.

Að gagnrýna þessa ríkisstjórn er farið að verða svolítið eins og að berja hausnum við vegg, vont og gagnslaust að því er virðist.

Samkvæmt yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því í maí á þessu ári áttu bætur almannatrygginga að hækka í samræmi við launahækkanir á almennum markaði.  Í þessu fólgst að bæturnar hækkuðu nú í sumar um a.m.k. 12 þús. kr. eins og lægstu laun á markaði.  Að vísu settu þeir prósentuhækkun á þær þar sem erfitt er að koma krónutöluhækkun rétt á þegar um er að ræða marga mismunandi bótaflokka.

Hefði stjórnin fylgt eigin fordæmi þá ættu bætur almannatrygginga að hækka um a.m.k. 11 þús. kr. á næsta ári í samræmi við hækkun lægstu launa.  En þess í stað ætlar stjórnin að hækka bæturnar, sem og ýmislegt annað líka, um 3,5%.  Það þýðir hækkun upp á tæpar 7 þús. kr. fyrir einstakling sem er eingöngu með örorku- eða ellilífeyri, þ.e.a.s. engar aðrar tekjur, hvaða nafni sem þær nú nefnast.

En þau ætla ekki að stoppa þar.  Ákveðið hefur verið að hækka ekki tvo bótaflokka með þeim rökum að þessir tveir bótaflokkar séu ekki jafn mikilvægir til framfærslu þeirra sem þá þiggja eins og aðrir bótaflokkar.  Það á sem sagt hvorki að hækka barnalífeyri né aldurstengdu örorkuuppbótina.  Þess má geta að aldurstengda örorkuuppbótin er jafnhá einföldum örorkulífeyri sé hún óskert.  Þetta þýðir að í fyrsta skiptið síðan þessari uppbót var komið á er verið að slíta hana í sundur frá lífeyrinum.

Og enn stoppa þau ekki.  Því að fyrir utan að það á ekki að hækka aldurstengdu uppbótina þá á líka að breyta útreikningunum á henni til að spara 200 milljónir.  Og þau hafa ekki einu sinni sóma í því að taka fram hvernig nákvæmlega á að breyta útreikningnum, það á bara eftir að koma ljós þegar kemur að árlegum lögum um breytingar á fjárhæðum almannatrygginga.  Og ef þau fylgja hefðinni þá verða þau lög ekki kláruð fyrr en rétt fyrir jól eða jafnvel á milli jóla og nýárs.

Og þá komum við að rúsínunni í pylsuendanum á þessu tauti mínu.  Fjármálaráðherra og stjórn hreykja sér mikið af því að hafa hækkað þennan flokk mikið á árinu en gleyma alveg að taka fram að þessi hækkun er ekki nema brot af þeirri hækkun sem þessi flokkur hefði átt að fá ef stjórnin hefði ekki fryst hækkanir á þessu sviði bæði áramótin 2009-10 og 2010-11 og að einungis 50% af hækkuninni sem átti að koma áramótin 2008-09 skilaði sér.

Fullar örorkubætur einstaklings sem hefur engar aðrar tekjur eru í dag um 196 þús. kr en ættu að vera um 225 þús. kr. ef að þessi ríkisstjórn hefði ekki ítrekað samþykkt lög sem felldu út ákvæði um hækkanir almannatrygginga.


mbl.is Breyta aldurstengdri örorku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband