Að berja hausnum við vegg.

Að gagnrýna þessa ríkisstjórn er farið að verða svolítið eins og að berja hausnum við vegg, vont og gagnslaust að því er virðist.

Samkvæmt yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því í maí á þessu ári áttu bætur almannatrygginga að hækka í samræmi við launahækkanir á almennum markaði.  Í þessu fólgst að bæturnar hækkuðu nú í sumar um a.m.k. 12 þús. kr. eins og lægstu laun á markaði.  Að vísu settu þeir prósentuhækkun á þær þar sem erfitt er að koma krónutöluhækkun rétt á þegar um er að ræða marga mismunandi bótaflokka.

Hefði stjórnin fylgt eigin fordæmi þá ættu bætur almannatrygginga að hækka um a.m.k. 11 þús. kr. á næsta ári í samræmi við hækkun lægstu launa.  En þess í stað ætlar stjórnin að hækka bæturnar, sem og ýmislegt annað líka, um 3,5%.  Það þýðir hækkun upp á tæpar 7 þús. kr. fyrir einstakling sem er eingöngu með örorku- eða ellilífeyri, þ.e.a.s. engar aðrar tekjur, hvaða nafni sem þær nú nefnast.

En þau ætla ekki að stoppa þar.  Ákveðið hefur verið að hækka ekki tvo bótaflokka með þeim rökum að þessir tveir bótaflokkar séu ekki jafn mikilvægir til framfærslu þeirra sem þá þiggja eins og aðrir bótaflokkar.  Það á sem sagt hvorki að hækka barnalífeyri né aldurstengdu örorkuuppbótina.  Þess má geta að aldurstengda örorkuuppbótin er jafnhá einföldum örorkulífeyri sé hún óskert.  Þetta þýðir að í fyrsta skiptið síðan þessari uppbót var komið á er verið að slíta hana í sundur frá lífeyrinum.

Og enn stoppa þau ekki.  Því að fyrir utan að það á ekki að hækka aldurstengdu uppbótina þá á líka að breyta útreikningunum á henni til að spara 200 milljónir.  Og þau hafa ekki einu sinni sóma í því að taka fram hvernig nákvæmlega á að breyta útreikningnum, það á bara eftir að koma ljós þegar kemur að árlegum lögum um breytingar á fjárhæðum almannatrygginga.  Og ef þau fylgja hefðinni þá verða þau lög ekki kláruð fyrr en rétt fyrir jól eða jafnvel á milli jóla og nýárs.

Og þá komum við að rúsínunni í pylsuendanum á þessu tauti mínu.  Fjármálaráðherra og stjórn hreykja sér mikið af því að hafa hækkað þennan flokk mikið á árinu en gleyma alveg að taka fram að þessi hækkun er ekki nema brot af þeirri hækkun sem þessi flokkur hefði átt að fá ef stjórnin hefði ekki fryst hækkanir á þessu sviði bæði áramótin 2009-10 og 2010-11 og að einungis 50% af hækkuninni sem átti að koma áramótin 2008-09 skilaði sér.

Fullar örorkubætur einstaklings sem hefur engar aðrar tekjur eru í dag um 196 þús. kr en ættu að vera um 225 þús. kr. ef að þessi ríkisstjórn hefði ekki ítrekað samþykkt lög sem felldu út ákvæði um hækkanir almannatrygginga.


mbl.is Breyta aldurstengdri örorku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það var mikið.

Þá er næstu mál á dagskrá:

Í fyrsta lagi að setja þessar reglur inn í aðalnámskrá svo að þær gildi á landinu öllu en ekki bara í Reykjavík.

Í öðru lagi að breyta faginu Kristinfræði í trúarbragðafræði og  raunverulega kenna sögu annarra trúarbragða til jafns við kristnina.

Og að lokum aðskilja ríki og kirkju að öllu leyti.


mbl.is Banna trúboð í skólum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þingmenn eru eingöngu bundnir af eigin sannfæringu.

Þrátt fyrir að mér hugnist ekki viðhorf hans á ýmsum sviðum þá hefur hann, ásamt Atla og Lilju, alla mína virðingu.  Mikið vildi ég að fleiri þingmenn þyrðu að standa með sjálfum sér.  Að þeir væru ekki flest allir eins og barðir hundar í stuttri ól formanna sinna.
mbl.is Segir sig úr þingflokknum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tæpt, því miður.

Tillagan felld með 32 nei á móti 30 já.  Afskaplega þykir mér þetta sorgleg niðurstaða.  Þá liggur eftir spurningin hvort að Jóhanna og Steingrímur sjái að sér og segi af sér sjálf.  En það mun væntanlega ekki gerast.  Ég geri frekar ráð fyrir að þau tvö muni halda dauðagripi í sína ráðherra stóla.  Get svo sem vel skilið það.

Vandamálið er hins vegar það að með þau tvö á þessum stólum þá er annars vegar þingi og þjóð haldið í gíslingu valdsjúkra eiginhagsmunaseggja sem eru í þokkabót svo veruleikafyrrt að þau geta ekki séð, hvað þá trúað, hversu heitt þjóðin vill fá þau frá.  Enda vanhæf með öllu.  Verst er samt hversu margt samflokksfólk þeim hefur tekist að heilaþvo með bullinu í sér.  Enda var það nokkuð augljóst af ræðum sumra stjórnarliða í kvöld að þau voru alveg jafn veruleikafyrrt og skötuhjúin.

Hins vegar þá hafa þau, ásamt nánum samstarfsaðilum, valdið vinstra sinnuðu fólki í landinu ómældum skaða.  Það verður, að ég held, langt að bíða þess að þjóðin þori aftur að kjósa yfir sig vinstri stjórn.  Og þá held ég að breyti litlu hversu mjög möguleg framtíðar vinstri stjórn/flokkur myndi reyna að sannfæra fólkið í landinu að vinstri stefnan feli meira í sér heldur en eintómar skattahækkanir á skattahækkanir ofan.

Hefði vinstri stefnunni verið fylgt í reynd þá hefði það ekki falið í sér frystingu á bótum almannatryggingakerfisins í tvö ár.  Hvað þá að skerðingarnar hefðu verið auknar aftur, að kerfið hefði verið fært aftur um ein 5-7 ár.  Eitthvað hefði sömuleiðis verið reynt, í það minnsta, til að koma í veg fyrir hinar löngu biðraðir eftir matargjöfum frá hjálparsamtökum.  Það hefði ekki bara verið horft á raðirnar og sagt: Jah, það er ágætt að einhver er hjálpa þessu fólki.  Eða eins og sumir stjórnarliðar hafa sagt að þetta sé nú ekki til að hjálpa fólki að standa á eigin fótum.  Það hefði sömuleiðis verið settur fullur kraftur í það frá byrjun að búa til störf í stað þess að hafa fleiri þúsundir á atvinnuleysisskrá.  Það hefði verið unnið eftir viðhorfinu að atvinnulaust fólk væri að fá bætur og að þá væri nú heldur skárra að nýta þennan starfskraft í nauðsynleg störf.  Og jafnvel ekki það nauðsynleg.  Svona gæti ég talið lengi.

Það er nefnilega svo að það felst meira í vinstri stefnunni heldur en hærri skattar.  Vissulega er hluti af stefnunni skattar en þá á að koma þjónusta á móti.  Raunveruleg norræn vinstri velferð felur nefnilega heilmikið í sér.  Það er ekki nóg að hækka bara skattana og skera alls staðar niður og kalla sig svo norræna velferðarstjórn.  


mbl.is Vantrauststillaga felld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ætli þetta sé það sem Jóhanna átti við....

Þegar hún sagði að það þyrfti mögulega að leita leiða til að styrkja stjórnina.  Ætli við sjáum frétt á næstu vikum um að Guðmundur hafi gengið til liðs við Samfylkinguna?  Jafnvel bara seinna í þessari viku.  Ef svo verður þá er nú spurning hvort að Siv fylgi þá ekki með líka.
mbl.is Guðmundur sat hjá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klapp, klapp, klapp

Þó ég geti ekki sagt að ég sé sammála honum varðandi aðildarviðræðurnar þá get ég ekki annað en tekið ofan fyrir stjórnarliða sem þorir að fylgja eigin sannfæringu í stað þess að elta foringjann eins og rófulausir hundar.
mbl.is Styður ekki lengur ríkisstjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klukkutími til stefnu.

Nú, þegar þetta er skrifað, er rétt rúmur klukkutími til stefnu fyrir Jóhönnu og Steingrím að segja af sér til að bjarga ríkisstjórninni.  Skyldi það gerast?  Efast um það.  Það væri hins vegar mjög uppörvandi atburður ef að þessir forkálfar einnar verstu ríkisstjórnar sögunnar myndu taka ábyrgð og segja af sér ráðherrastól og helst þingsæti líka.  Kemur í ljós á eftir.
mbl.is Þurfa að færa fórnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það væri þolanlegur millivegur.

Ef að þau skötuhjúin myndu segja af sér þá væri mögulega hægt að bjarga þessari ríkisstjórn. Allavega út kjörtímabilið. Ég verð nefnilega að taka undir að ekki vil ég fá Sjálfstæðisflokkinn aftur í stjórn. Og líkurnar eru yfirgnæfandi á að það yrði niðurstaðan.  Ekki sé ég merki um að nokkuð nýtt afl sé á leiðinni.  Allavega ekki sem gæti skákað þeim.

Það eru nefnilega einstaklingar innan núverandi ríkisstjórnar sem eru actually að standa sig og standa á sínu.  Þar er einna augljósast hvernig Ögmundur er að standa sig.  En svo hafa heyrst mjög upplífgandi ummæli frá Guðbjarti velferðarráðherra líka.  

En af slæmum kostum er nóg að taka.  Málið er að reyna finna þann sem er skástur.  Og hvað sem það kostar þá þurfum við að losna við Jóhönnu og Steingrím. 


mbl.is Vildu vantraust á oddvita ríkisstjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru VG vísvitandi að reyna að eyðileggja flokkinn sinn.

Ekki það að ég myndi mikið gráta það þó sá flokkur myndi hverfa hér af sjónarsviðinu.  Ég held að fátt í stjórnmálum hafi meiri eyðileggingarmátt, til lengri tíma litið, en flokkur sem kennir sig við vinstri stefnuna en virðist ekki hafa hugmynd um hvað felst í þeirri stefnu.  Flokkur sem hefur aldrei kunnað neitt annað en að vera á móti á erfitt með að losa sig við þá venju þegar hann þarf svo allt í einu að vera með.  Enda sést það á því að það eina sem þessi flokkur virðist hafa afrekað síðan hann komst í stjórn er að hækka skatta án nokkurs tillits til hvers konar skaða hann er að valda.

Ekki það að Samfylkingin hafi staðið sig neitt betur.

Það sorglega er að í augnablikinu virðumst við eingöngu hafa val, væri boðið til kosninga núna, á milli flokkana sem ollu hruninu eða flokkana sem hafa sýnt það svart á hvítu að þau réðu ekkert við verkefnin sem þurftu að leysa.

Ég persónulega myndi kjósa Hreyfinguna miðað við valmöguleikana í dag, þó það væri ekki út af neinu öðru en að þau komu hvergi nálægt hruninu.  En ég myndi hins vegar vilja sjá þau taka út úr sinni stefnuskrá að þau ætli að flýja um leið og þau hafi uppfyllt sína stefnu.  Því ef þau kæmust til valda og tækist ætlunarverk sitt þá  myndi enginn vera eftir til að viðhalda ástandinu sem þau vilja koma á.


mbl.is Þuríður þingflokksformaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhanna og Steingrímur mörkuðu þá leið.

Ekki þjóðin.  Ekki höfðu þau fyrir því að spyrja þjóðina hvað hún vildi.  Þau ákváðu bara að víst að þjóðin var svo vitlaus að kjósa þau á þing þá mættu þau gera það sem þeim dytti í hug.  Þrátt fyrir að það væri margbúið að benda þeim á þetta væri ekki það sem þjóðin vildi þá héldu þau samt áfram.  Ruddust áfram eins og fílahjörð í postulínsbúð án þess að skeyta neitt um afleiðingarnar.

Ég skildi vel af hverju Davíð Oddson var orðinn uppfullur af valdhroka á sínum tíma (og er enn).  Skýringin á því var einfaldlega hversu lengi hann var búinn að sitja á valdastól.

En aldrei datt mér í hug að fólk gæti orðið svona yfirfullt af valdhroka á þetta stuttum tíma eins og hefur sýnt sig með Jóhönnu og Steingrím.  Miðað við hvernig þau haga sér þá mætti halda að þau hafi verið í stjórn seinustu 20 árin en ekki 2 ár.  

Jóhann og Steingrímur, hafið vit á að segja af ykkur áður en mannorð ykkar er algjörlega farið í vaskinn.  Þið getið ennþá bjargað ykkur fyrir horn með því að viðurkenna að þetta hafi verið ykkur ofviða og gengið í burtu með allavega þann virðingarvott að geta viðurkennt ósigur og að þið hafið haft rangt fyrir ykkur. 


mbl.is Ný leið mörkuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband