Undrandi??

Það kemur mér mest á óvart að þau skuli vera undrandi yfir þessu. Ólafur Ragnar er búinn að setja ákveðið fordæmi varðandi hvað þarf að gera til að koma málum í þjóðaratkvæði. Ef hann færi að brjóta út frá því fordæmi væri næsta víst að hann neyddist til að segja af sér embætti. Þar fyrir utan, eins og hann sagði sjálfur, þá er þetta framhald af Icesave II og það hefði skotið skökku við ef við, þjóðin, hefðum ekki fengið að klára það mál.

Þá er bara að fylkja liði á kjörstaði og segja nei við þessum lögum. Um að gera að kjósa til stjórnlagaþings í leiðinni. Og kjörstjórnir landsins, væruð þið til í að fara að lögum um almennar kosningar í þetta sinn.


mbl.is Undrast mjög ákvörðun forseta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitt pennastrik

Með einu pennastriki hækkar kjararáð laun dómara um 1/3 af mínum heildartekjum. Ef við berum þetta saman við fullar örorkubætur einstaklings sem býr einn og er ekki með neinar aðrar tekjur þá er þessi hækkun tæp 55% af tekjum hans. MEÐ EINU PENNASTRIKI.

Vissulega er álag á dómurum en hvað með álagið sem er öllum öðrum vegna kreppunnar? Ekki fær restin af samfélaginu slíka kjarabót. Og þetta er þrátt fyrir að verið sé að fjölga dómurum tímabundið. Á sama tíma eykst stöðugt álagið á margar aðrar starfsstéttir og fólki er fækkað í þokkabót, eins og t.d. innan heilbrigðisgeirans.

Ég verð að taka undir með BSRB um að þetta sé mjög athugaverð þróun og hvet önnur félög til að lýsa andstöðu sinni og hneykslan á þessu pennastriki líka.


mbl.is BSRB átelur launahækkun dómara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Opið bréf til Forseta Íslands

Hér með skora ég á þig að staðfesta ekki lög þau er samþykkt voru þann 16. febrúar 2011 um heimild til handa fjármálaráðherra til að staðfesta samninga,
sem áritaðir voru í London 8. desember 2010, um ábyrgð á endurgreiðslu
Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta til breska og hollenska ríkisins á kostnaði af greiðslu lágmarkstryggingar til innstæðueigenda í útibúum Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og Hollandi og greiðslu eftirstöðva og vaxta af þeim skuldbindingum.

Þegar þessi færsla er skrifuð þá hafa verið skráðar 38.167 undirskriftir á síðu kjosum.is þar sem þú ert hvattur til að neita að staðfesta fyrrnefnd lög. Viljir þú vera samkvæmur sjálfur þér þá ber þér að neita að staðfesta þessi lög. Árið 2004 barst þér undirskriftarlisti með nöfnum 31.752 Íslendinga sem vildu ekki að þú staðfestir lög um fjölmiðla.
Eins og flestir vita þá kom þáverandi þing i veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um þau lög með því að samþykkja frekar önnur lög sem felldu þau fyrri úr gildi. Þrátt fyrir frekar skýr ákvæði í stjórnarskrá Íslands þá komu samt upp spurningar um hvort þér væri yfirhöfuð heimilt að vísa lögum til þjóðaratkvæðisgreiðslu og upp komu háværar raddir um að breyta þyrfti stjórnarskrá í þá veru að fjarlægja þetta ákvæði úr henni. En það hefur ekki enn verið gert.
Með þessu gafstu ákveðið fordæmi sem ég tel að þú hljótir að fylgja eftir. Þegar lög um Icesave II voru samþykkt barst þér aftur undirskriftarlisti, í þetta skiptið með nöfnum 56.089 einstaklinga sem hvöttu þig til að neita að staðfesta þau lög. Og aftur gerðir þú það en í þetta skiptið rötuðu lögin til þjóðaratkvæðisgreiðslu þar sem 98,1% gildra atkvæða sögðu nei við því að lögin ættu að taka gildi.
Í undanfara þeirra kosninga voru margir sem sögðu þjóðina ekki vera færa um að kjósa um svo flókin málefni, þar með talinn hæstvirtur fjármálaráðherra, ef ég man rétt. Aðra eins óvirðingu gagnvart þjóðinni hef ég sjaldan séð af einum af hæst settu einstaklingum þjóðarinnar. Það sem kemst kannski næst því er hin snilldarlausn sem þáverandi forsetis- og utanríkisráðherrar komu með 2004 að fella bara lögin úr gildi.
Með því að neita að staðfesta lög öðru sinni eftir að hafa fengið afhentan undirskriftarlista þá einungis styrktir þú fordæmið sem þú gafst eftir fyrra skiptið.
En af öðrum ástæðum fyrir að þú eigir að neita að staðfesta þessi lög líka má nefna að þessi lög og samningurinn sem þau fjalla um eru með réttu einungis framhald af lögunum sem þú neitaðir að staðfesta seinast og því er rökrétt að leyfa þjóðinni að kjósa aftur um þau. Annað er að þingheimur felldi breytingartillögu um að þessi lög ættu að fara í þjóðaratkvæði með naumum meirihluta 33 atkvæðum gegn 30. Og mátti auðveldlega skilja orð Árna Páls þegar hann gerði grein fyrir atkvæði sínu um þá breytingartillögu að enginn þingmaður Samfylkingarinnar myndi styðja slíka breytingartillögu þannig að þingmenn þess flokks væru tilneyddir til að segja nei. Það verður að athugast að það hefðu einungis tveir þingmenn stjórnarinnar í viðbót þurft að svíkja lit til að þessi lög hefðu farið í þjóðaratkvæði.

Það er mitt mat að þau atriði sem ég hef nú þegar talið til ættu að duga fyrir þig að ákveða að neita að staðfesta þessi lög en til að bæta um betur þá vil ég minna á að það eru einungis 44 einstaklingar sem hafa samþykkt þessi lög. Lög sem eru framhaldstilraun af lögum sem 134.392 einstaklingar samþykktu ekki.

Er ekki rökrétt og sanngjarnt að þjóðin fái aftur að meta kosti og galla þessara laga í almennum kosningum?


mbl.is Forsetinn fékk frumvarpið í kvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tíma illa varið

Spurning hversu mörgum raunverulega mikilvægum málum hefði verið hægt að koma í gegnum þingið hefðu þessum 208 tímum verið varið í þau í staðinn fyrir þetta eina mál. Alls ekki misskilja mig, þetta mál er mjög mikilvægt en það hefði ekki átt að þurfa nema smá stund, brot af þessum 208 tímum, að komast að hinni einu réttu niðurstöðu: VIÐ EIGUM EKKI AÐ BORGA ICESAVE.
En því miður er það svo að meirihluti þeirra sem sitja á þingi þora ekki öðru en að láta gömlu heimsveldin kúga sig og þar með þjóðina alla. Þau þora ekki að taka áhættuna á að farin verði dómstólaleiðin því þau halda að við munum tapa því dómsmáli.

Mín kenning er hins vegar sú að Bretar og Hollendingar muni aldrei fara dómstólaleiðina að eigin frumkvæði, alveg sama hvað gengur á. Þeir muni hins vegar, ef svo fer að forseti vors neiti aftur að skrifa undir lögin (sem ég vona að gerist) og þjóðin segir aftur nei, bjóða okkur enn þá betri samning og svo enn betri samning eftir það.

Ástæðan fyrir því að þeir muni aldrei fara í mál við okkur að eigin frumkvæði er að það væri alltaf "lose/lose situation" hjá þeim. Á aðra höndina gætu þeir unnið og Ísland verið skikkað til að borga allt saman en þá væri komið dómafordæmi fyrir því að tryggingasjóðir innistæðna væru með ríkisábyrgð og hvorug þjóðin gæti staðið undir því ef þeirra eigin bankakerfi myndi hrynja og þá sérstaklega ekki Bretland. Það þyrfti meira að segja ekki nærri jafn stórt hrun á þeirra mælikvarða til að þeir gætu ekki staðið undir því. Og á hinn bóginn ef þeir myndu tapa því máli og þar af leiðandi kæmi í ljós að við hefðum haft réttinn okkar megin þá væri það "PR Disaster" fyrir bæði Hollendinga og Breta. Þar með væri það staðfest að þessar stóru þjóðir hafi á óréttmætan hátt þvingað litla Ísland til samningagerðar og reynt að þvinga okkar litlu þjóð til að skuldsetja sig í fleiri ár án þess að það væru lagaleg rök með því.

Hér með hvet ég Forseta vor, Ólaf Ragnar Grímsson, til að neita að staðfesta þessi(ó)lög og vísa þessu til þjóðaratkvæðis. Á þann hátt getur meirihluti þjóðarinnar ákveðið að steypa okkur í skuldafen næstu 35 árin eða staðið uppi á móti stóru þjóðunum. Á hvorn veginn sem sú atkvæðagreiðsla færi þá væru í það minnsta aðeins fleiri heldur en 44 hræður sem hefðu valið fyrir þjóðina. Aðeins meira heldur en 0,014% prósent þjóðarinnar sem hefðu valið fyrir hin 99,986% sem búa hér í þessu landi.


mbl.is Icesave-umræða í 208 stundir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband